„Staðan á mér er nokkuð góð. Ég æfði í gær og aftur í dag,“ sagði Jóhann Berg á blaðamannafundi KSÍ í dag en þessi magnaði leikmaður Burnley bar aftur á móti fyrirliðabandið í leiknum gegn Rúmeníu.
„Það var mjög gaman og mikil forréttindi. Ég hefði vissulega kosið önnur úrslit í þeim leik en það kemur.“
Það er ansi breitt aldursbilið í hóp íslenska liðsins að þessu sinni og Jóhann segir gott að geta miðlað af reynslu sinni til yngri leikmanna.
„Það er mikið aldursbil en þetta eru frábærir strákar og frábærir í fótbolta. Þeir læra á að vera í kringum eldri leikmenn og læra hvað þarf til að vinna leiki fyrir Ísland. Það er ekki það sama sem virkar hér og hjá Þjóðverjum til að mynda. Því fyrr sem þeir læra það því betra.“