Fótbolti

Grikkir stöðvuðu sigurgöngu Svía | Ítalir með stórsigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ítalir unnu stórsigur í kvöld og tróna á toppi C-riðils.
Ítalir unnu stórsigur í kvöld og tróna á toppi C-riðils. Emmanuele Ciancaglini/Quality Sport Images/Getty Images

Íslendingar voru ekki þeir einu sem léku í undankeppni HM 2022 í kvöld, en ásamt leik Íslands fóru ellefu aðrir leikir fram.

Svíar töpuðu sínum fyrsta leik í B-riðli þegar að liðið mætti Grikkjum. Anastasios Bakasetas og Evangelos Pavlidis skoruðu mörk Grikkja í 2-1 sigri liðsins, en Robin Quaison skoraði mark Svía.

Í sama riðli unnu Spánverjar öruggan 2-0 sigur gegn Kósovó þar sem að Pablo Fornals og Ferran Torres sáu um markaskorun leiksins. Spánverjar eru nú með fjögurra stiga forskot á Svía sem sitja í öðru sæti með níu stig.

Í C-riðli tróna Ítalir á toppnum eftir 5-0 sigur gegn Litháen. Moise Kean skoraði tvö mörk fyrir ítalska liðið í kvöld og Giacomo Raspadori og Giovanni Di Lorenzo skoruðu sitt markið hvor, en Edgaras Utkus varð fyrir því óláni að koma Ítölum í 2-0 þegar hann skoraði sjálfsmark.

Walesverjum mistókst að hrifsa til sín annað sætið í E-riðli þegar að liðið gerði markalaust jafntefli gegn Eistum og Belgar sigla lygnan sjó á toppi riðilsins með 16 stig eftir 1-0 sigur gegn Hvíta-Rússlandi. Dennis Praet skoraði eina mark leiksins eftir rúmlega hálftíma leik.

Í I-riðli er mikil spenna eftir leiki kvöldins þar sem að aðeins tveim stigum munar á öðru og fjórða sæti. Englendingar tróna þó á toppnum, fjórum stigum fyrir ofan Albaníu sem situr í öðru sæti.

Í riðli okkar Íslendinga, J-riðli, gerðu Norður-Makedónía og Rúmenía markalaust jafntefli og Liechtenstein náði í sitt fyrsta stig þegar að liðið gerði 1-1 jafntefli gegn Armeníu. HHenrikh Mkhitaryan hafði komið Armeníu yfir af vítapunktinum rétt fyrir hálflei, en Noah Frick jafnaði metin fyrir Liechtenstein þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Úrslit kvöldsins

B-riðill

Grikkland 2-1 Svíþjóð

Kósovó 0-2 Spánn

C-riðill

Ítalía 5-0 Litháen

Norður-Írland 0-0 Sviss

E-riðill

Hvíta-Rússland 0-1 Belgía

Wales 0-0 Eistland

I-riðill

Albanía 5-0 San Marínó

Ungverjaland 2-1 Andorra

Pólland 1-1 England

J-riðill

Armenía 1-1 Liechtenstein

Ísland 0-4 Þýskaland

Norður-Makedónía 0-0 Rúmenía




Fleiri fréttir

Sjá meira


×