Fótbolti

Tap Íslands eitt það óvæntasta

Sindri Sverrisson skrifar
Vlad Chiriches brýtur á Viðari Erni Kjartanssyni í 2-0 sigri Rúmeníu gegn Íslandi á Laugardalsvelli.
Vlad Chiriches brýtur á Viðari Erni Kjartanssyni í 2-0 sigri Rúmeníu gegn Íslandi á Laugardalsvelli. vísir/Hulda Margrét

Nú þegar 149 leikir hafa verið spilaðir í undankeppni HM karla í fótbolta er 2-0 tap Íslands gegn Rúmeníu síðasta fimmtudag talið meðal óvæntustu úrslitanna.

Þetta er mat íþróttatölfræðiveitunnar Gracenote sem hefur tekið saman tíu óvæntustu úrslitin í undankeppninni til þessa, í tilefni þess að „leikjaglugga“ tvö af fjórum var að ljúka. Undankeppnin heldur áfram 8.-12. október og henni lýkur með leikjum 11.-16. nóvember.

Þjóðverjar, sem léku Íslendinga grátt á Laugardalsvelli í gær og unnu 4-0, eiga þátt í óvæntustu úrslitum undankeppninnar til þessa. Um er að ræða 2-1 útisigur Norður-Makedóníu gegn Þýskalandi í mars en samkvæmt mati Gracenote voru aðeins 7% líkur á þeim úrslitum.

Heimasigur Lúxemborgar á Írlandi, 1-0, og útisigur Skotlands á Austurríki, einnig 1-0, koma næstir þar á eftir í röð óvæntustu úrslitanna. 

Samkvæmt Gracenote telst 2-0 tap Íslands gegn Rúmeníu á heimavelli sjöttu óvæntustu úrslitin. Tölfræðiveitan horfir væntanlega ekki til þeirrar staðreyndar að í íslenska liðið vantaði sex leikmenn sem voru í byrjunarliði Íslands þegar undankeppnin hófst í mars en samkvæmt mati hennar voru 74% líkur á að Ísland fengi að minnsta kosti stig gegn Rúmeníu.

Fyrir leikinn við Rúmeníu hafði Ísland aðeins tapað einum af síðustu 19 heimaleikjum sínum í undankeppnum eða umspili stórmóta.

Eftir leikina þrjá á síðustu dögum, og ef Þjóðadeildin er talin með, hefur Ísland nú hins vegar leikið fimm heimaleiki í röð án sigurs. Það gerðist síðast á árunum 2005-2007 þegar Ísland lék sjö heimaleiki í röð án sigurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×