Innlent

Góður árangur Framsóknar hafi áhrif

Samúel Karl Ólason og Snorri Másson skrifa
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Vísir/Vilhelm

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir niðurstöður kosninganna skýrar. Framsókn, Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum sé treyst til stjórnarmyndunar en formenn flokkanna komu saman á funduðu í Stjórnarráðinu í dag.

Hann sagði stjórnarflokkana þrjá, og þá ekki síst Framsóknarflokkinn, hafa náð gríðarlega góðum árangri í kosningunum. Það myndi eflaust endurspegla vinnuna inn í næsta kjörtímabil.

Þá sagði Sigurður Ingi að engir aðrir formenn hefðu farið á fjörurnar við sig varðandi mögulega stjórnarmyndun. Enda hefðu þau þrjú verið mjög skýr í þeirri afstöðu varðandi það að halda samstarfinu áfram.

Eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skömmu áður, sagði Sigurður Ingi of snemmt að ræða mögulega deilingu ráðuneyta milli flokkanna né það hver verði forsætisráðherra.

Sjá einnig: Ólíklegt að allt verði eins og það var

Aðspurður um mögulega lengd stjórnarmyndunar sagðist Sigurður Ingi vita að sú vinna gæti ekki verið endalaust og að ákveðin óvissa myndi skapast eftir nokkrar vikur. Þau þyrftu þó tíma til að vinna vel úr verki.

Um það að endurtelja eigi atkvæði í tveimur kjördæmum sagðist Sigurður Ingi treysta því að yfirkjörstjórnir og landskjörstjórnir fari yfir málið og tryggi að allt hafi farið rétt fram og niðurstaðan væri skýr. Hann sagðist ekki telja að talningin myndi hafa nokkur áhrif á stjórnarmyndunarviðræðurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×