Fótbolti

Koeman: Ekki hægt að bera þetta lið við Barcelona lið fyrri tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronald Koeman fylgist með liði sínu spila í gærkvöldi.
Ronald Koeman fylgist með liði sínu spila í gærkvöldi. AP/Armando Franca

Ronald Koeman, þjálfari Barcelona, situr líklegast í heitasta þjálfarastólnum í evrópska fótboltanum í dag en liðið hans steinlá 3-0 á móti Benfica í Meistaradeildinni í gær og er bæði stigalaust og markalaust efir tvo leiki í keppninni.

Blaðamenn sóttu að Koeman eftir leikinn en hann var því að þetta lið Barcelona í dag sé ekki samanburðarhæft við fyrrum lið félagsins sem gerðu það svo gott með Lionel Messi í fararbroddi. Nú er Messi farinn, peningamálin í ruglinu og leikur liðsins virðist hruninn.

„Ég ætla ekki að rífast um getustig liðsins míns,“ sagði Ronald Koeman og bætti við:

„Það þýðir ekkert að bera þetta lið við fyrri lið Barcelona. Það er eins skýrt og það verður. Ég get aðeins sagt mína skoðun á vinnu minni hjá félaginu. Mér finnst ég hafa stuðning leikmannanna og þeirra hugarfar segir mér það líka,“ sagði Koeman.

„Leikmenn Benfica eru líkamlega sterkri og þeir eru fljótir. Í sambandið við fyrstu tvö mörkin þá þurfum við að verjast miklu betur,“ sagði Koeman.

„Við fengum góð tækifæri til að skora og þannig getur þú breytt þróun leiks. Sú staðreynd að Benfica liðið nýtti stóran hluta sinna tækifæra sýnir aðalmuninn á þessum liðum í kvöld. Við vorum ekki slakari en en við vorum bara lakari í að nýta færin,“ sagði Koeman.

Koeman talaði þarna um færi liðsins. Barcelona hefur nú leikið tvo leiki í Meistaradeildinni á þessari leiktíð.

Það er ekki nóg með að liðið hafi tapað þeim báðum og ekki skorað eitt einasta mark þá hafa leikmenn liðsins ekki einu sinni náð einu skoti á mark andstæðinganna á þessum 180 mínútum.

Tapleikirnir á móti Bayern and Benfica þýða jafnframt að Barcelona hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í Evrópukeppni í fyrsta sinn í næstum því fimm áratugi eða síðan að liðið tapaði tvisvar á móti Porto í UEFA bikarnum 1972-73.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×