Fótbolti

Tveir synir Eiðs Smára í hópnum: Þurfa ekki að klæðast landsliðstreyju til að gera mig stoltan af þeim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen er aðstoðarþjálfari landsliðsins.
Eiður Smári Guðjohnsen er aðstoðarþjálfari landsliðsins. Getty/Marc Atkins

Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, er með tvo syni sína í landsliðshópnum fyrir leikina á móti Armeníu og Liectenstein í undankeppni HM. Hann var spurður út í strákana sína á blaðamannafundi í dag.

Hinn 23 ára gamli Sveinn Aron Guðjohnsen kom aftur inn í landsliðshópinn en hafði verið áður valinn í tíð Eiðs Smára. Hinn nítján ára gamli Andri Lucas Guðjohnsen lék sína fyrstu landsleiki í síðasta verkefni og skoraði þá sitt fyrsta A-landsliðsmark.

„Það er svolítið sérstök staða að vera með tvo drengi í hópnum. Í þessa tíu daga, þegar kemur að fjölskyldumeðlimum eða sérstaklega börnum manns, þá skiptum við því hlutverki þannig að Arnar sér meira um allar ákvarðanir sem eru teknar í sambandi við þá,“ sagði Eiður Smári.

„Ég efast um að það séu fleiri á leiðinni í framtíðinni fyrir utan kannski Daníel sem er fimmtán ára. Það má alveg minnast á það líka að þeir eiga mömmu sem hefur staðið við bakið á þeim í öllu sem þeir gera. Ég hef oft verið spurður af því hvort ég sé ekki stoltur,“ sagði Eiður Smári og hélt áfram.

„Auðvitað er ég stoltur af börnunum mínum og ég er stoltur af því sem þeir standa fyrir og hverjir þeir eru sem persónur. Þeir þurfa ekki að klæðast landsliðstreyju til að gera mig stoltan af þeim. En auðvitað sló pabbahjartað aðeins hraðar þegar Andri skoraði fyrsta landsliðsmakrið. Ég viðurkenni það, maður er ekki alveg tilfinningalaus,“ sagði Eiður Smári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×