„Það var ekki mikið skorað í leiknum og bæði lið spiluðu góða vörn. Á tímabili gat hvorugt liðið keypt sér mark og seinni hálfleikurinn var rosalega lengi að bíða. En þegar markvarslan kom small þetta hjá okkur,“ sagði Þórey við Vísi eftir leik.
Fram náði undirtökunum með því að skora síðustu fjögur mörk fyrri hálfleiks. Staðan að honum loknum var 10-12, Frömmurum í vil.
„Það var mjög mikilvægur kafli. Þær komu samt til baka og maður var aldrei almennilega rólegur. Þetta var fyrst og fremst ótrúlega gaman. Mér fannst við vinna bæði inni á vellinum og í stúkunni,“ sagði Þórey.
Valskonur sóttu hart að Framkonum undir lokin en án árangurs. „Mér fannst þær ekki almennilega hafa trú á því að þær gætu náð okkur, ef ég á að segja alveg eins og er. Mér fannst vanta eitthvað blik í augun á þeim. Maður var samt ekki rólegur og við sigldum þessu heim á seiglunni.“
Í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn mætir Fram annað hvort KA/Þór eða FH. Þórey gerir ráð fyrir því að andstæðingur laugardagsins verði Íslandsmeistararnir að norðan.
„Ég á von á KA/Þór en það kemur í ljós á eftir. Ég á von á hörkuleik. Þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir, að spila leiki upp á líf og dauða,“ sagði Þórey.
Verið er að klára bikarkeppnina fyrir tímabilið 2020-21 sem ekki náðist að klára vegna kórónuveirufaraldursins.
„Þetta er eina árið sem maður getur unnið tvær bikarkeppnir þannig að það er um að gera að gefa allt í þetta,“ sagði Þórey létt að lokum.