Fótbolti

Misskildi hrópin og skoraði þess vegna

Sindri Sverrisson skrifar
Mohamed Elyounoussi fagnar eftir að hafa komið Noregi yfir gegn Svartfjallalandi í gær.
Mohamed Elyounoussi fagnar eftir að hafa komið Noregi yfir gegn Svartfjallalandi í gær. EPA-EFE/Annika Byrde

Mohamed Elyounoussi, framherji Southampton, skoraði bæði mörk Noregs í gærkvöld þegar liðið vann mikilvægan sigur á Svartfjallalandi, 2-0. Seinna markið má segja að hann hafi skorað óvart, eftir að hafa misskilið köll af hliðarlínunni.

Moi, eins og Elyounoussi er kallaður, hafði verið gagnrýndur fyrir að klúðra góðu skallafæri gegn Tyrklandi á föstudaginn í 1-1 jafntefli. Hann skoraði hins vegar fyrra mark sitt í gær með skalla.

„Maður verður alltaf bara að gleyma því sem er búið og gert. Það var samt gott að ná að bæta upp fyrir það og sýna að ég er í raun góður skallamaður,“ sagði Moi eftir sigurinn í gær.

Mikið gekk á í uppbótartíma leiksins í gær og gestirnir frá Svartfjallalandi misstu mann af velli með rautt spjald. Moi skoraði svo seinna markið sitt á sjöttu mínútu uppbótartímans eftir að hann misskildi leiðbeiningar um að hann ætti að halda boltanum og láta leiktímann renna út.

„Við vorum undir pressu á lokamínútunum. Þegar ég fékk boltann heyrði ég af hliðarlínunni: „Niður í hornið.“ Þeir áttu við að ég ætti að skýla boltanum úti við hornfána en ég hélt að þeir meintu að ég ætti að skjóta í hornið á markinu. Það reyndist gott val,“ sagði Moi.

Sigurinn þýðir að Noregur á enn fína möguleika á að komast á HM. Þegar tvær umferðir eru eftir er Holland efst í G-riðli með 19 stig, Noregur er með 17, Tyrkland 15 og Svartfjallaland 11. Noregur á eftir heimaleik við Lettland og svo útileik við Holland, í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×