Fótbolti

Ungverskar bullur réðust að lögreglu á Wembley

Sindri Sverrisson skrifar
Lögregla átti fullt í fangi með að halda aftur af fótboltabullum úr röðum 1.000 stuðingsmanna Ungverjalands á Wembley.
Lögregla átti fullt í fangi með að halda aftur af fótboltabullum úr röðum 1.000 stuðingsmanna Ungverjalands á Wembley. Getty/Marc Atkins

Ungverskar fótboltabullur réðust að lögreglumönnum á Wembley í gærkvöld á landsleik Englands og Ungverjalands í undankeppni HM í fótbolta.

Bullurnar bauluðu jafnframt þegar ensku landsliðsmennirnir krupu á hné fyrir upphaf leiksins, líkt og leikmenn hafa gert síðustu misseri til að sýna samstöðu með réttindabaráttu svartra.

Lögregla sagði „minni háttar ólæti“ hafa brotist út eftir að einn var handtekinn fyrir kynþáttaníð sem beindist gegn vallarstarfsmanni. Málið hafi hins vegar verið afgreitt fljótt án frekari vandræða.

Fyrir mánuði síðan urðu leikmenn Englands fyrir kynþáttaníði þegar liðið mætti Ungverjalandi á útivelli í Búdapest.

Fjölmennt lið lögreglu náði fljótt tökum á ástandinu á Wembley í gær.Getty/Nick Potts

Íslendingar kynntust ungverskum fótboltabullum á Evrópumótinu í Frakklandi 2016 þar sem ólæti þeirra ollu meðal annars miklum töfum við að hleypa áhorfendum inn á leikvanginn í Marseille þar sem Ísland og Ungverjaland mættust í 1-1 jafntefli.

Leiknum á Wembley í gærkvöld lauk með 1-1 jafntefli þar sem John Stones jafnaði metin fyrir England í fyrri hálfleik eftir að Roland Sallai kom gestunum yfir úr vítaspyrnu.

England er efst í I-riðli með 20 stig, þremur stigum á undan Póllandi, en Ungverjaland á ekki lengur von um að komast á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×