Fótbolti

Spurningarnar fyrir síðasta landsliðshóp ársins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson situr fyrir svörum á blaðamannafundi klukkan 13:15 í dag.
Arnar Þór Viðarsson situr fyrir svörum á blaðamannafundi klukkan 13:15 í dag. vísir/vilhelm

Arnar Þór Viðarsson tilkynnir í dag hópinn fyrir síðustu leiki karlalandsliðsins í fótbolta í undankeppni HM 2022. En hverjir verða í þessum síðasta landsliðshópi ársins?

Ísland mætir Rúmeníu í Búkarest 11. nóvember og Norður-Makedóníu í Skopje þremur dögum síðar. Íslendingar eru í fimmta og næstneðsta sæti J-riðils undankeppninnar með átta stig, fimm stigum frá 2. sætinu sem gefur þátttökurétt í umspili um sæti á HM.

Þótt ótrúlegt megi virðast á Ísland enn möguleika á að ná öðru sætinu þrátt fyrir að vera aðeins með átta stig eftir átta leiki í riðlinum. Líkurnar eru samt ekki með íslenska liðinu, alls ekki. Til marks um það metur íþróttatölfræðiveitan Gracenote möguleika Íslands á að ná öðru sæti nær núll prósent en einu prósenti. En miði er möguleiki eins og Lloyd Christmas sagði svo eftirminnilega í kvikmyndinni Dumb and Dumber.

Íslenski hópurinn hefur tekið miklum breytingum á síðustu mánuðum, af ýmsum ástæðum, og liðið sem spilaði leikina í síðasta mánuði var nánast óþekkjanlegt frá liðinu sem hóf undankeppnina í mars. Ungum leikmönnum hefur verið hent í djúpu laugina og þurft að spjara sig. Og það heppnaðist þokkalega í síðasta mánuði þar sem Ísland gerði 1-1 jafntefli við Armeníu og vann Liechtenstein, 4-0.

Litlar líkur á þátttöku

Aron Einar Gunnarsson hefur ekki spilað fyrir landsliðið síðan í byrjun sumars. Hann var með kórónuveiruna í september og í síðasta mánuði var hann ekki valinn sem frægt er orðið. Aron Einar er undir rannsókn hjá lögreglunni ásamt Eggerti Gunnþóri Jónssyni vegna meints kynferðisbrots eftir landsleik í Danmörku fyrir ellefu árum.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hefur sagt að leikmenn sem sæti lögreglurannsókn eigi ekki að vera valdir í landsliðið á meðan og því verður að teljast afar ólíklegt að Aron Einar verði í hópnum sem verður tilkynntur í dag.

Gylfi Þór Sigurðsson verður ekki með þar sem hann er í farbanni eftir að hafa verið handtekinn á Englandi í sumar vegna gruns um kynferðisbrot gegn barni. Gylfi er laus gegn tryggingu til 16. janúar á næsta ári.

Stjórn KSÍ tók Kolbein Sigþórsson út úr landsliðshópnum fyrir leikina í september eftir að opinbert varð að hann hefði greitt tveimur íslenskum konum miskabætur vorið 2018, eftir að þær kærðu hann fyrir meint kynferðisbrot og líkamsárás haustið 2017.

Kolbeinn gekkst undir aðgerð og hefur ekkert spilað né æft með Gautaborg í haust og mun ekkert spila með liðinu það sem eftir lifir þessa árs. Því eru engar líkur eru því á að hann verði í landsliðshópnum.

Jóhann Berg Guðmundsson dró sig út úr landsliðshópnum fyrir leikina í síðasta mánuði vegna nárameiðsla. Hann lýsti einnig yfir óánægju með vinnubrögð KSÍ en sagði meiðslin aðalástæðu þess að hann dró sig út úr hópnum.

Jóhann Berg virðist vera kominn á fulla ferð og hefur verið í byrjunarliðinu í síðustu tveimur leikjum Burnley. Hann lék allan leikinn þegar liðið sigraði Brentford, 3-1, í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Langþráð endurkoma Alfreðs

Eftir langa fjarveru vegna meiðsla er Alfreð Finnbogason kominn á lappir og byrjaður að spila með Augsburg. Á sunnudaginn skoraði hann eitt mark og lagði upp annað í 4-1 sigri á Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni. Alfreð spilaði allan leikinn en þetta er í fyrsta sinn sem hann spilar heilan deildarleik með Augsburg í tvö ár.

Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu gegn Stuttgart.getty/Roland Krivec

Í viðtali við Ríkharð Óskar Guðnason í Sportpakkanum vildi Alfreð ekki segja hvort hann yrði með í landsleikjunum sem framundan eru.

„Ég ætla bara að leyfa landsliðsþjálfaranum að tilkynna hópinn. Ég hef ekki náð að tala við hann, er bara rétt að komast af stað. Eins og þú sagðir þá er langt síðan ég spilaði níutíu mínútna leiki. Ég hef átt fín samtöl við þjálfarateymið síðan þeir tóku við, ég hef bara ekki verið heill þegar hóparnir eru valdir upp á síðkastið,“ sagði Alfreð.

„Mikilvægast fyrir mig er að byrja á grunninum, það er að standa mig með mínu liði. Leiðin í landsliðið er að standa sig með sínu liði. Það er ekki öfugt, að þú sért í landsliðinu bara út af einhverju sem þú gerðir fyrir þremur árum. Fyrir mig er mikilvægast að byrja á grunninum spila þrjá, fjóra eða fimm leiki í röð og fá tilfinninguna að maður sé fótboltamaður aftur.“

Heldur ólíklegt verður að teljast að Alfreð gefi kost á sér í landsleikina. Hann er nýkominn aftur á ferðina eftir langvarandi meiðsli og hefur nokkrum sinnum meiðst í landsleikjum sem hefur komið í veg fyrir að hann geti spilað með Augsburg. Það kæmi allavega á óvart að sjá nafn Alfreðs á blaði þegar landsliðshópurinn verður kynntur.

Á Guðlaugur Victor afturkvæmt?

Guðlaugur Victor Pálsson lék gegn Armeníu í síðasta mánuði en dró sig út úr landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Liechtenstein. Arnari Þór virtist ekki skemmt yfir þessari ákvörðun Guðlaugs Victors.

„Gulli taldi sig þurfa að fara aftur til síns félags. Mönnum er alltaf leyfilegt að draga sig út úr hópnum en að sjálfsögðu er ég að velja landsliðshóp fyrir tvo landsleiki og þá viljum við að sjálfsögðu hafa þá leikmenn. Menn geta dottið út af mismunandi ástæðum, hvort sem er út af meiðslum eða leikbönnum, en Gulli taldi það mikilvægara fyrir sjálfan sig að fara aftur til síns félags. Þá þarf ég ekkert að vera sammála því en það er staðan eins og hún er,“ sagði Arnar Þór í samtali við Guðjón Guðmundsson.

Ákvörðunin borgaði sig þó fyrir Guðlaug Victor því í fyrsta leiknum eftir landsleikjahléið lagði hann upp sigurmark Schalke í 0-1 útisigri á Hannover 96 í þýsku B-deildinni. Frammistaða Guðlaugs Victors í leiknum skilaði honum sæti í liði vikunnar hjá Kicker.

Forvitnilegt verður að sjá hvort Guðlaugur Victor verði valinn í landsliðshópinn eða hvort hann gefi hreinlega kost á sér. Eftir að hafa beðið lengi eftir tækifæri með landsliðinu var Guðlaugur Victor í stóru hlutverki í stjóratíð Eriks Hamrén og einnig hjá Arnari Þór. Frammistaða hans í landsleikjunum í haust var hins vegar ekki upp á marga fiska.

Meiðsli og lítil leikæfing

Rúnar Már Sigurjónsson dró sig út úr landsliðshópnum fyrir september-leikina vegna meiðsla og persónulegra aðstæðna. Hann var ekki valinn í síðasta landsliðshóp þar sem hann var ekki í leikæfingu. Skagfirðingurinn lék aðeins samtals fjörutíu mínútur með Cluj í síðasta mánuði og var ekki í leikmannahópi liðsins í síðasta leik þess.

Sverrir Ingi Ingason og Hörður Björgvin Magnússon eru enn á meiðslalistanum og hafa ekkert spilað á þessu tímabili. Þeir verða því áfram fjarri góðu gamni í næstu landsleikjum. Jón Daði Böðvarsson er áfram í frystinum hjá enska B-deildarliðinu Milwall og verður væntanlega ekki valinn, sérstaklega í ljósi frammistöðu Guðjohnsen-bræðranna, Sveins Arons og Andra Lucasar, í leiknum gegn Liechtenstein.

Verður pláss fyrir besta leikmann OB?

Fáir íslenskir atvinnumenn hafa leikið jafn vel undanfarnar vikur og Aron Elís Þrándarson. Hann var valinn leikmaður október-mánaðar hjá OB og var í liði mánaðarins í dönsku úrvalsdeildinni.

Aron Elís lék einn leik með landsliðinu í sumar en hefur ekki verið valinn í landsliðshópinn í haust þrátt fyrir skínandi góða spilamennsku með sínu félagsliði. Í samtali við útvarpsþáttinn Fótbolta.net á X-inu 977 sagði Aron að sjálfsögðu vonast eftir því að fá tækifæri með landsliðinu.

„Maður vill alltaf vera valinn í landsliðið en það var ekkert of mikið svekkelsi. Ef ég held áfram að standa mig með OB í langan tíma þá kannski fær maður kallið,“ sagði Aron Elís.

„Ég segi ekki að ég hafi verið búist við því en það er alltaf von þegar maður er að standa sig vel. Maður veit ekki hvað gerist. Ef maður er ekki að vonast eftir því að vera valinn í landsliðið þá getur maður sleppt því að vera í þessu.“

Annar leikmaður sem hefur ekki hlotið náð fyrir augum Arnars Þórs að undanförnu er Arnór Ingvi Traustason. Hann spilar reglulega fyrir New England Revolution, topplið Vesturdeildarinnar í MLS. Arnór Ingvi hefur leikið 28 deildarleiki á tímabilinu, skorað tvö mörk og gefið sjö stoðsendingar.

Viðar Ari Jónsson í einum af sex A-landsleikjum sínum.getty/Visual China Group

Viðar Ari Jónsson hefur ekki spilað með landsliðinu síðan í ársbyrjun 2018. Á þessu tímabili hefur hann blómstrað í nýrri stöðu, á hægri kantinum, hjá Sandefjord í norsku úrvalsdeildinni. Viðar hefur skorað níu mörk og lagt upp fjögur og er áttundi markahæsti leikmaður deildarinnar. Auk þess hefur hann skorað tvö mörk í norsku bikarkeppninni.

Skagamaðurinn ungi, Hákon Arnar Haraldsson, var í fyrsta sinn í byrjunarliði FC Kaupmannahafnar þegar liðið vann 3-0 sigur á Vejle á Parken á sunnudaginn og þakkaði traustið með skallamarki.

Í síðasta mánuði lék Hákon, sem er átján ára, með U-19 ára landsliðinu og með U-21 árs landsliðinu í september. Fær hann tækifæri með A-landsliðinu að þessu sinni?

Getur bætt leikjametið

Birkir Bjarnason verður væntanlega á sínum stað í landsliðshópnum. Hann hefur leikið 103 landsleiki og vantar aðeins einn leik til að jafna met Rúnars Kristinssonar. Fastlega má búast við því að 22 ára landsleikjamet Rúnars falli í Skopje 14. nóvember enda Birkir ekki vanur að missa af landsleikjum.

Nafni Birkis, Már Sævarsson, getur einnig jafnað landsleikjamet Rúnars í þessari ferð. Hann hefur leikið 102 landsleiki. Valsmaðurinn hefur leikið fjóra af fimm landsleikjum haustsins en missti af leiknum gegn Liechtenstein vegna leikbanns líkt og Ari Freyr Skúlason og Ísak Bergmann Jóhannesson. Alfons Sampsted, leikmaður Noregsmeistara Bodø/Glimt, tók stöðu Birkis Más í leiknum gegn Liechtenstein.

Birkir Már hefur ekki spilað frá því í leiknum gegn Armeníu en það kæmi mjög á óvart ef hann yrði ekki í landsliðshópnum. Þess má geta að Birkir Már fagnar 37 ára afmæli sínu 11. nóvember, sama dag og Ísland og Rúmenía mætast.

Blaðamannafundur KSÍ, þar sem Arnar Þór kynnir landsliðshópinn, hefst klukkan 13:15 og verður í beinni útsendingu og textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×