Fótbolti

Jóhann með nákvæmustu fyrirgjafir allra í undankeppni HM

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu um langt árabil en mun ekki taka slaginn gegn Vlad Chiriches og félögum í rúmenska landsliðinu annað kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu um langt árabil en mun ekki taka slaginn gegn Vlad Chiriches og félögum í rúmenska landsliðinu annað kvöld. vísir/Hulda Margrét

Það er skarð fyrir skildi hjá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta vegna fjarveru Jóhanns Bergs Guðmundssonar í komandi leikjum. Enginn landsliðsmaður í Evrópu hefur verið nákvæmari í fyrirgjöfum sínum en Jóhann, í undankeppni HM til þessa.

Jóhann hefur spilað fjóra af átta leikjum Íslands í undankeppni HM til þessa. Nákvæmlega helmingur fyrirgjafa hans í þessum leikjum hefur heppnast.

Samkvæmt tölfræðiveitunni WhoScored.com er Jóhann með nákvæmustu fyrirgjafirnar af þeim 75 landsliðsmönnum sem reynt hafa að lágmarki 20 fyrirgjafir í undankeppninni.

Ísland leikur tvo síðustu leiki sína í undankeppninni þegar liðið mætir Rúmeníu annað kvöld og Norður-Makedóníu á sunnudaginn.

Jóhann gaf ekki kost á sér í leikina, ekki frekar en í október, en hann vill að sögn Arnars Þórs Viðarssonar landsliðsþjálfara koma skrokknum í betra ástand. Jóhann hefur verið óheppinn með meiðsli síðustu misseri en komið við sögu í öllum ellefu leikjum Burnley á þessari leiktíð í ensku úrvalsdeildinni, og byrjað sjö þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×