Innlent

Helgi sagður hafa kallað konu „lesbíulega“ og snert hana án samþykkis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Ég vildi hætta hjá Landsvirkjun og óskaði eftir starfslokum. Meira er ekki um það að segja,“ sagði Helgi við Stundina.
„Ég vildi hætta hjá Landsvirkjun og óskaði eftir starfslokum. Meira er ekki um það að segja,“ sagði Helgi við Stundina. Vísir/Vilhelm

Helgi Jóhannesson, fyrrverandi yfirlögfræðingur Landsvirkjunar, lét af störfum eftir að kona kvartaði undan óviðeigandi ummælum Helga í sinn garð og óumbeðna snertingu.

Frá þessu greinir Stundin.

Í frétt miðilsins kemur fram að Helgi hafi hætt í október eftir að hafa fengið formlega áminningu vegna hegðunar sinnar í garð samstarfskonu. Kvartaði hún til yfirstjórnar Landsvirkjunar í vor og sagði Helga ítrekað hafa farið yfir mörk og áreitt sig með orðum og gjörðum.

Konan starfaði á starfsmannasviði fyrirtækisins en sagði upp áður en Helgi hætti þar sem hún treysti sér ekki til að vinna á sama vinnustað og hann.

Helgi vildi ekki ræða við Stundina.

Miðillinn hefur eftir heimildarmönnum að alvarlegasta atvikið hafi átt sér stað í vor, þegar Helgi á að hafa króað konuna af úti í horni og strokið kinn hennar gegn vilja hennar. Þá er Helgi hafður hafa sagt ítrekað við konuna að hún væri lesbíuleg eftir að hafa farið í klippingu.

Samkvæmt heimildamönnum Stundarinnar bað Helgi konuna afsökunar og bauð henni að klípa sig í rassinn. Þeir segja málið ekki hafa verið skilgreint sem kynferðislega áreitni heldur sem óviðeigandi hegðun.

Ítarlega umfjöllun má finna á vef Stundarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×