Fótbolti

Nýi mark­vörðurinn og nýja mið­varðar­parið voru bestir í Búkarest í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elías Rafn Ólafsson hefur haldið marki sínu hreinu í tveimur síðustu landsleikjum.
Elías Rafn Ólafsson hefur haldið marki sínu hreinu í tveimur síðustu landsleikjum. Getty/Jose Manuel Alvarez

Íslenska karlalandsliðið gerði markalaust jafntefli á móti Rúmeníu í kvöld í næstsíðasta leik sínum í undankeppni HM í Katar 2022. Þetta var þriðji leikurinn í röð án taps og annar leikurinn í röð sem liðið hélt hreinu.

Það var samheldið og baráttuglatt íslenskt lið sem náði í eitt stig í Búkarest í kvöld. Auðvitað má gera betur en ungt lið sýndi þroskamerki og von um enn betri frammistöðu í næstu framtíð með að sækja stig á útivelli á móti fótboltaþjóð sem þurfti nauðsynlega á stigunum að halda í baráttu um sæti á HM.

Fyrri hálfleikurinn var að mörgu leyti vel spilaður hjá íslensku strákunum þó þeir hafi stundum dottið aðeins of aftarlega á völlinn. Íslenska liðið gaf ekki mörg færi á sér í opnum leik en Rúmenar ógnuðu í föstum leikatriðum. Svipaða sögu má segja af sóknarleik íslenska liðsins þar sem bestu færin komu eftir löng innköst.

Það var aðeins meira sjálfstraust í íslenska liðinu í seinni hálfleik og liðið var framar á vellinum og að vinna hann oftar ofar á vellinum. Oft á tíðum máttu leikmenn liðsins gera betur úr lofandi sóknum en á móti komust Rúmenar ekki í mörg hættuleg færi.

Varnarvinna íslenska liðsins var mjög góð og það er án efa hægt að byggja ofan á hana með nýja markvörðinn og nýja miðvarðarparið á góðri leið með að tryggja sér fast sæti í byrjunarliðinu. Allir þrír litu mjög vel úr og voru bestu menn liðsins í kvöld.

Ísak Bergmann Jóhannesson á ferðinni í leiknum á móti Rúmeníu í Búkarest í kvöld.EPA-EFE/Robert Ghement



Einkunnagjöf Íslands fyrir Rúmenía - Ísland

Byrjunarlið:

Elías Rafn Ólafsson, markvörður 8  Var mjög öruggur í öllum sínu í leiknum. Hafði nokkrum sinnum heppnina með sér en heilt yfir var hann kóngur í ríki sínum í markteignum. Varði skotin sem komu á hann sem voru flest skot sem hann átti að verja. Gerði aftur á móti einkar vel í nokkrum útihlaupum sínum.

Alfons Sampsted, hægri bakvörður 6 Hélt stöðu sinni í liðinu og stóð sig vel. Gaf ekkert eftir og var duglegur að bjóða sig upp kantinn. Mjög fylginn sér og harður af sér í návígi. Það er ekki hægt að sjá annað en að hægri bakvarðarstaðan í liðinu sé að verða hans.

Brynjar Ingi Bjarnason, miðvörður 7 Átti flottan leik í miðri íslensku vörninni. Oftast mjög vel staðsettur og vann flest skallaeinvígi sem hann fór í leiknum. Spilaði boltanum oft mjög vel út úr vörninni og sýndi að hann er kominn með sjálfstraust til leiða varnarlínu liðsins. Kom sér í nokkru færi í föstum leikatriðum og hefði auðveldlega geta skorað.

Daníel Leó Grétarsson, miðvörður 7 Hefur heldur betur átt óvænta innkomu í þetta landslið en um leið er hann að standa sig betur og betur með hverjum leik. Það sást meðal annars munur á honum milli hálfleikja í kvöld. Kom sér oft fyrir skot Rúmena og gerði fá mistök.

Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður 6 Stutt gaman í landsleik númer 83 hjá elsta manni íslenska byrjunarliðsins. Tognaði á nára eftir aðeins fjórtán mínútna leik, gerði sér strax grein fyrir stöðunni og bað um skiptingu. Mjög grimmur í öllum samstuðum að venju og gerði ágætlega þann tíma sem hans naut við.

Birkir Bjarnason, miðjumaður 6 Var í nýrri stöðu sem aftasti miðjumaður og komst ágætlega frá sínu. Hélt stöðunni lengstum vel og freistaðist ekki of oft að hlaupa fram. Það dróg mikið af honum í seinni hálfleiknum og hann hefði mátt leysa sumar stöður betur. Sýndi samt að hann er reynslumikill og getur vel leyst þessa stöðu áfram.

Ísak Bergmann Jóhannesson, miðjumaður 6 Aðalmaðurinn í bestu sóknum íslenska liðsins í fyrri hálfleik og mjög spilandi þegar hann fékk boltann. Sýndi líka ábyrgð varnarlega, duglegur að hlaupa til baka og varði íslenska markið í skyndisóknum sem kostaði hann reyndar spjald í lok fyrri hálfleiks. Náði samt ekki alveg að fylgja þessu í seinni hálfleiknum.

Stefán Teitur Þórðarson, miðjumaður 6 Komst ágætlega frá sínu. Hljóp mikið og tapaði ekki mörgum návígum. Skapaði margoft hættu með innköstum sínum. Það kom ekki mikið úr honum í spilinu en það var kannski ekki hans hlutverk. Kraftur hans og innköstin hjálpa vissulega liðinu.

Albert Guðmundsson, hægri kantmaður 5 Það eru miklar kröfur settar á Albert að búa til eitthvað fyrir íslenska liðið í sóknarleiknum. Oftar en ekki þá er hann að reyna of erfiða hluti en um leið vantar oft svo lítið upp að úr verði eitthvað sérstakt. Vantaði samt oft að gera hlutina hraðar og í færri snertingum. Lenti nokkrum sinnum í stöðunni einn á einn sem hann dólaði sér aðeins of mikið og færið rann frá honum.

Jón Dagur Þorsteinsson, vinstri kantmaður 6 Sókndjarfasti leikmaður íslenska liðsins og alltaf tilbúinn að keyra á bakvörðinn. Fór líka nokkrum sinnum illa með varnarmenn Rúmena og fiskaði nokkrar aukaspyrnur. Hann hefði eins og fleiri mátt enda sóknirnar betur og ná fleiri skotum að marki en heilt yfir gerði hann sitt ágætlega.

Sveinn Aron Guðjohnsen, framherji 4 Það er ekki hægt að gagnrýna hann fyrir vinnusemina sem var vissulega til staðar. Var í mjög krefjandi stöðu sem einn frammi og réð ekki alveg við það. Tókst ekki að halda boltanum nógu vel og lítið kom út úr löngum sendingum á hann. Fékk ekki mikla hjálp frá dómaranum sem gaf honum ekki aukaspyrnurnar sem hann vildi og átti að fá. Hitti ekki boltann nógu vel í sínu besta færi.

Varamenn:

Guðmundur Þórarinsson kom inn á fyrir Ara Frey á 15. mínútu 6 Kom inn á fyrir Ara Frey snemma leiks og stóðs það próf ágætlega. Gerði oft mjög vel í sókninni, bæði með góðum sendingum og réttum hlaupum. Lenti stundum í vandræðum í vörninni en slapp oftast með skrekkinn. Lítur út fyrir að vera tilbúinn að fá þessa stöðu í fangið.

Þórir Jóhann Helgason kom inn á fyrir Stefán Teit á 74. mínútu Lék of lítið Hljóp og djöflaðist eftir að hann kom inn á en komst lítið í boltann.

Andri Lucas Guðjohnsen kom inn á fyrir Svein Aron á 74. mínútu Lék of lítið Hefur oft gert vel eftir að hafa komið inn á völlinn en var eiginlega aldrei með í kvöld. Flaug ítrekað á hausinn en gerði einu sinni mjög vel í að búa til góða skyndisókn. Þarf að fá alvöru próf með því að byrja landsleik.

Mikael Egill Ellertsson kom inn á fyrir Albert á 90. mínútu Lék of lítið Kom inn á völlinn á lokamínútu leiksins og gerði ekkert til að skrifa um.

Aron Elís Þrándarson kom inn á fyrir Ísak Bergmann á 90. mínútu Lék of lítið Fékk lítinn spilatíma en gerði mjög vel í að skapa gott skotfæri fyrir Birki Bjarnason í blálokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×