Fótbolti

Lyon-maðurinn skaut Brasilíumönnum inn á HM í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lucas Paqueta fagnar sigurmarki sínu í nótt en með því tryggði hann þjóð sinni sæti á HM 2022.
Lucas Paqueta fagnar sigurmarki sínu í nótt en með því tryggði hann þjóð sinni sæti á HM 2022. AP/Andre Penner

Brasilía varð í nótt fyrsta Suður-Ameríkuþjóðin til að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu í Katar á næsta ári.

Brasilía gulltryggði farseðil sinn með 1-0 sigri á Kólumbíu í Sao Paulo. Suður-Ameríkuþjóðirnar keppa í riðli þar sem allir spila við alla heima og að heiman. Fjórar þjóðir fara beint á HM og fimmta sætið gefur sæti í umspili.

Lucas Paqueta, leikmaður Lyon í Frakklandi, skoraði eina mark leiksins en hann kom boltanum framhjá David Ospina, markverði Kólumbíu, á 72. mínútu leiksins.

Brasilíumenn voru að tryggja sér sæti á 22. heimsmeistaramótinu í röð en þeir hafa fimm sinnum orðið heimsmeistarar.

Paqueta er 24 ára gamall og kom til Lyon frá AC Milan árið 2020. Hann hefur spilað í Evrópu frá árinu 2018 en er kominn með 6 mörk í 27 landsleikjum.

Brasilíska landsliðið hefur þar með unnið ellefu heimaleiki í röð í undankeppninni. Þetta var líka tíundi heimaleikurinn sem Brassar halda marki sínu hreinu.

Alisson Becker, markvörður Liverpool, var í marki Brasilíu í þessum leik í nótt.

Fjórar þjóðir hafa tryggt sér sæti á HM. Auk gestgjafanna frá Katar og Brasilíu þá eru Þjóðverjar og Danir einnig öruggir inn á HM 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×