Fótbolti

Birkir um leikjametið „Sjáum til hvað gerist, þarf að spila leikinn fyrst“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Bjarnason hefur leikið 104 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Engnn hefur leikið fleiri.
Birkir Bjarnason hefur leikið 104 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Engnn hefur leikið fleiri. Vísir/Vilhelm

Spili Birkir Bjarnason leik Íslands og Norður-Makedóníu á morgun verður hann leikjahæsti leikmaður í sögu íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Hann og Rúnar Kristinsson deila metinu nú með 104 leiki hvor.

Birkir sat fyrir svörum ásamt landsliðsþjálfaranum Arnari Þór Viðarssyni fyrir leik Íslands og N-Makedóníu í Skopje á morgun. Hann var spurður hvort hann væri mikið að velta þessu fyrir sér.

„Nei alls ekki. Við sem lið erum náttúrulega aðallega einbeittir í að halda þessari þróun áfram sem er búin að vera í gangi í síðustu landsliðsverkefnum. Við leikmennirnir höfum verið að finna fyrir því að við erum á réttri leið. Við þurfum hins vegar að fara breyta þessum frammistöðum í sigra.“

„Þetta leikjamet er því ekki eitthvað sem ég hef pælt mikið í. Við sjáum bara til hvað gerist, ég þarf að spila leikinn fyrst.“

Birkir var einnig spurður út í stöðu Íslands í riðlinum og hver markmið liðsins hefðu verið áður en undankeppnin hófst.

„Markmiðið okkar var að ná öðru sæti riðilsins og komast þannig í umspilið. Við höfum hins vegar fengið marga nýja leikmenn inn og erum að reyna byggja upp nýtt lið, það mun taka tíma. Við erum samt sem áður ekki ánægðir með úrslitin okkar til þessa í riðlinum né stöðuna sem við erum í.“

„Við erum mjög spenntir í að gera betur og sýna okkar rétta andlit. Okkur lakkar mjög til leiksins á morgun og erum vel stemmdir í að ná í þrjú stig,“ sagði þessi reynslumikli miðjumaður að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×