Fótbolti

Jón Dagur: Fagnið var skemmtilegt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslendingar fagna marki Jóns Dags Þorsteinssonar gegn Norður-Makedóníu.
Íslendingar fagna marki Jóns Dags Þorsteinssonar gegn Norður-Makedóníu. epa/NAKE BATEV

Jón Dagur Þorsteinsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir íslenska landsliðið í keppnisleik í kvöld. Ísland tapaði þá fyrir Norður-Makedóníu, 3-1, í síðasta leik sínum í undankeppni HM 2022.

„Auðvitað var fyrri hálfleikurinn erfiður eftir að við fengum mark á okkur snemma. En mér fannst við byrja seinni hálfleikinn vel, við unnum okkur vel inn í leikinn en þetta var smá brekka eftir seinna markið þeirra,“ sagði Jón Dagur í samtali við RÚV eftir leikinn.

Þrátt fyrir að norður-makedónska liðið unnið leikinn í kvöld og sé á leið í umspil um sæti á HM finnst Jóni Degi ekki vera mikill munur á því og íslenska liðinu.

„Auðvitað eru þeir búnir að spila mjög lengi saman og eru með fullt af góðum leikmönnum. En mér finnst þeir ekkert frábærir. Við erum á okkar vegferð og ef við höldum áfram verðum við jafnokar liða eins og Norður-Makedóníu,“ sagði Jón Dagur.

Eftir að hann jafnaði á 54. mínútu fagnaði hann fyrir framan háværa stuðningsmenn Norður-Makedóníu.

„Fyrst og fremst var bara skemmtilegt að spila í þessu andrúmslofti. Það var allt undir hjá þeim. Fagnið var skemmtilegt,“ sagði Jón Dagur.

Hann hlakkar til komandi tíma með íslenska landsliðinu. „Við erum með ungt lið, erum að reyna að búa til nýtt lið og það eru spennandi tímar framundan. Þetta verður skemmtilegra með tímanum“


Tengdar fréttir

Birkir Már hættur með lands­liðinu

Birkir Már Sævarsson spilaði sinn síðasta leik fyrir íslenska landsliðið í 3-1 tapi Íslands gegn Norður-Makedóníu í lokaleik undankeppni HM 2022. Þetta staðfesti Birkir Már í viðtali við RÚV eftir leik.

„Ég er ungur ennþá“

Birkir Bjarnason var svekktur yfir niðurstöðunni gegn Norður-Makedóníu í kvöld en stoltur af að hafa slegið leikjametið í íslenska karlalandsliðinu í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×