Málflutningur saksóknarar og verjanda fór fram í dómsal á Jótlandi í morgun. Flemming sagðist ekki vilja enda í hefðbundnu fangelsi og vildi þess í stað vera dæmdur til sérstakrar fangavistar.
Fangavist þessi sem Flemming vildi kallast á dönsku „forvaring“ og er notuð fyrir sérstaklega hættulega fanga. Slíkur dómur felur ekki í sér fyrirfram ákveðna lengd afplánunar og yrði Flemming vistaður á sérstakri geðdeild.
Saksóknarar vildu að Flemming hljóti hefðbundinn lífstíðarfangelsisdóm.
Flemming ávarpaði dóminn í morgun og sagðist hann, samkvæmt umfjöllun Bt, ekki hafa fengið nægilega hjálp eftir fyrra morðið sem hann framdi árið 1995. Þá stakk hann barnsmóður sína til bana.
Sjá einnig: Freyja hafi vitað af fyrri dómi sem maðurinn hlaut fyrir morð
Hann sagði geðlækna og lækna ekki hafa tekið hann alvarlega og því vilji hann fá þá hjálp núna. Flemming sagðist ekki telja að hann fengi hana í hefðbundnu fangelsi.
Reyndi að hylma yfir morðið
Flemming var ákærður fyrir að hafa myrt Freyju með því að kyrkja hana þann 29. janúar síðastliðinn. Þá hafi hann sundurlimað lík hennar og reynt að fela það á heimili þeirra og í garðinum.
Ekstrabladet segir Flemming hafa lýst því yfir að hann vildi meiri tíma með börnum sínum og Freyju áður en upp kæmist um morðið. Því hafi hann falið líkið.
Flemming, sem á að baki tíu ára dóm fyrir annað morð, tilkynnti lögreglu þann 2. febrúar að Freyja væri týnd. Sama dag var hann handtekinn grunaður um að hafa orðið henni að bana. Síðan hefur hann sætt gæsluvarðhaldi.
Sagði Flemming ekki hafa sýnt iðrun
Jesper Rubow, saksóknari, sagði í dómsal í morgun að Flemming hefði ekki sýnt neina iðrun og það væru engar ástæður til að dæma hann ekki í lífstíðarfangelsi.
Hann sagði Flemming hafa sent skilaboð úr síma Freyju eftir að hann myrti hana, bæði til vinnuveitanda hennar og kærasta hennar. Hann hafi tilkynnt hana týnda í stað þess að játa strax og hafi ekki játað fyrr en lögregluþjónar fundu lík Freyju.
Dómarar voru ekki lengi að komast að niðurstöðu í málinu og dæma Flemming í lífstíðarfangelsi. Flemming, sem er 52 ára gamall, á rétt á að sækja um skilorð eftir tólf ár.
Danska ríkisútvarpið segir Flemming hafa beðið um frest til að ákveða hvort hann myndi áfrýja niðurstöðunni.