„Já þetta var vissulega mjög óvænt. Ég frétti af þessu bara í morgun. Og auðvitað hugsar maður fyrst og fremst til þeirra sem smituðust en þetta er bara mikill heiður að fá að fara inn í þetta hús hérna á mánudaginn,“ segir varaþingmaðurinn Thomas Möller.
Hann var ekki alveg búinn að græja það sem hann þarf að klára fyrir jólin en honum gefst eflaust lítill tími til þess í næstu viku.
„En það var gerður skurkur í dag í jólainnkaupum og rauðkálið var skorið niður áðan. Þannig þetta er allt að koma.“
Rætt var við Thomas og Elínu Önnu Gísladóttur, varaþingmenn Viðreisnar í Kvöldfréttum í kvöld:
Bagaleg staða
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er sjálfur í sóttkví ásamt öllum sínum þingflokki eftir að Oddný G. Harðardóttir, þingmaður flokksins, greindist með veiruna. Hann segir það bagalegt að svo margir þinmenn séu úr leik við umræðu um fjárlögin.
„Það er auðvitað bagalegt þegar kannski mikilvægustu lög landsins eru til umræðu og við búin að setja okkur mikið inn í þau að þurfa að kalla algerlega nýtt fólk að borðinu í svo miklum mæli eins og til dæmis Viðreisn þarf að gera,“ segir Logi.
Þrátt fyrir það telja varaþingmennirnir sig tilbúna til að takast á við áskorunina.
„Við erum bara tilbúin í slaginn og hlökkum til að takast á við þetta verkefni. Þetta er stór áskorun auðvitað en við erum tilbúin,“ segir Elín Anna.

Það eru ekki bara þingmenn Viðreisnar sem eru smitaðir heldur líka starfsfólk þingflokksins.
„Og hugur okkar er náttúrulega bara hjá starfsfólkinu og þingmönnunum sem eru veikir og við vonum að þau veikist ekki illa. Og almennt bara allir landsmenn – það er fullt af fólki í einangrun, það er erfitt, það er jólatíð núna og fólk vill vera með fjölskyldunni sinni. Þannig að þó að við fáum stórt verkefni að glíma við þá held ég að það sé erfiðara að sitja heima í einangrun núna,“ segir Elín Anna.