Frá 15. til 19. desember 2020 voru að greinast á bilinu 5 til 14 smit á dag, 85 í heildina þessa fimm daga. Jólakúla stjórnvalda gerði ráð fyrir 10 manna samkomubanni, tveggja metra reglu og skemmtistaðir, sundlaugar og líkamsræktarstöðvar voru lokuð. Allir biðu spenntir eftir bóluefni.
Margfalt fleiri smit og splunkuný afbrigði
Á nákvæmlega sama tímabili, ári síðar, eru að greinast um 200 smit á dag, alls 954 yfir þessa fimm daga, frá 15. til 19. desember 2021. Og það er ýmist delta eða ómíkron, sem var enn ekki fætt fyrir síðustu jól. Við erum núna með 50 - 500 manna samkomubann, eins metra reglu, skemmtistaðir eru opnir, eins og sundlaugar og líkamsræktarstöðvar, með takmörkunum þó. Langflestir eru bólusettir.
Öll spálíkön upp í loft
Thor Aspelund tölfræðiprófessor segir í samtali við fréttastofu að nú séu öll spálíkön upp í loft og Ísland stefni hraðbyri í sama far og hin Norðurlöndin. Hann segir það eina í stöðunni að herða aðgerðir til muna.
Núgildandi reglugerð rennur út á miðnætti fyrir þorláksmessu, en Þórólfur hefur lagt til enn hertari aðgerðir við heilbrigðisráðherra. Samkvæmt heimildum fréttastofu er meðal annars lagt til 20 manna samkomubann og að skólarnir ekki aftur til starfa fyrr en 10. janúar.