Innlent

Reyna að létta stemmninguna fyrir börnin

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Bræður voru bólusettir.
Bræður voru bólusettir. vísir/vilhelm

Lím­miðar, sápu­kúlur og leik­at­riði eru notuð til að reyna að létta stemmninguna við bólu­setningar barna á höfuðborgarsvæðinu sem hófust með skipu­legum hætti í há­deginu í dag. Allt hefur gengið vel fyrir sig þar en tals­vert meiri tími fer í að bólu­setja börn en full­orðna.

„Já, þetta er náttúru­lega tölu­vert ó­líkt. Börnin geta náttúru­lega verið kvíðin og hrædd, eins og gengur og gerist, þannig að þetta getur tekið á. Við þurfum að gefa þeim miklu lengri tíma alla­vega,“ segir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir, hjá heilsu­gæslunni.

Börnin voru misspennt fyrir sprautunni en dagurinn fór vel af stað.vísir/vilhelm

Og ræningjarnir Kasper, Jesper og Jónatan úr Kardemommubæ Þjóðleikhússins voru niðri í Laugardalshöll í morgun til að skemmta krökkunum og óhætt að segja að það hafi vakið lukku gesta. 

Dagurinn hafi farið vel af stað en það eru um 1.600 börn sam­tals í þeim tólf skólum sem á að bólu­setja í dag. Heilsu­gæslan gerir þó alls ekki ráð fyrir að svo margir mæti; mörg börn hafi þegar fengið Co­vid ný­lega, séu í ein­angrun eða sótt­kví eða muni ekki þiggja bólu­setningu.

Þá gerði mikil að­sókn full­orðinna í örvunar­skammt fyrir há­degi heilsu­gæslunni erfiðara fyrir.

Ræningjarnir þrír tóku nokkur lög fyrir börnin, enda fyrrverandi tónlistarmenn.vísir/vilhelm

„Já, þetta var miklu meira en við bjuggumst við. Við á­kváðum að hafa opið hús hérna milli 10 og 12 fyrir full­orðna sem að væru að koma annað hvort í sína fyrstu sprautu eða örvunar­skammt. Við boðuðum samt engan en það er miklu meiri traffík en við áttum von á,“ sagði Ragn­heiður Ósk í há­degis­fréttum Bylgjunnar. Hún var þá í þann mund að fara að stöðva þá traffík en klukkan 12 var enn löng röð hjá full­orðnum þegar börnin áttu að fá höllina fyrir sig.

Óttuðust mótmæli

Vaktin var þó gríðar­lega vel mönnuð í dag og lög­regla með mikinn við­búnað á svæðinu enda var óttast að mót­mælendur myndu láta sjá sig fyrir utan höllina í dag.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir segir erfiðara að bólusetja börn en fullorðna. Stöð 2/Sigurjón

Það hafa þeir hins vegar ekki gert enn.

„Við erum öll með meiri við­veru í dag. Þetta er sá hópur sem við viljum standa okkur sér­stak­lega vel fyrir. Þannig það er svona á­stæðan fyrir mönnuninni, við ætlum öll að gera okkar besta,“ segir Ragn­heiður Ósk.

„Þetta fer vel af stað. Það eru tölu­vert margir krakkar búnir að koma hérna í morgun og taka for­skot á sæluna. Það hefur gengið mjög vel og við teljum okkur vera ansi vel mönnuð með því að færa þetta og vera öll saman hér. Þannig mér sýnist þetta vera að fara vel af stað.“

Bólusett verður alla vikuna í Laugardalshöll en víða um land hófst bólusetning barna á þessum aldri í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×