Erlent

Gagn­rýnir valda­leysið og segir af sér sem for­seti

Atli Ísleifsson skrifar
Armen Sarkissian hafði gegnt forsetaembættinu í Armeníu frá árinu 2018.
Armen Sarkissian hafði gegnt forsetaembættinu í Armeníu frá árinu 2018. EPA

Armen Sarkissian, forseti Armeníu, sagði af sér embætti gær. Hann gagnrýndi meðal annars valdaleysi embættisins og óánægju með ákvarðanir teknar í tengslum við deilur landsins og Aserbaídsjans.

Sarkissian hefur gegnt forsetaembættinu frá árinu 2018, eða frá því að stjórnarskrárbreytingar tóku gildi sem fólu í sér að verulega var dregið úr völdum forseta og völd forsætisráðherra stóraukin.

DW segir frá því að Sarkissian hafi sagst mjög óánægður með vangetu forsetaembættisins til að hafa áhrif á stefnumótun við stjórn landsins á krísutímum, en ítrekað kastaðist í kekki milli forsetans og forsætisráðherrans Nikol Pashinyan vegna deilna Armena við Asera um héraðið Nagorno-Karabakh fyrir um ári.

Sarkissian var ósammála þeirri ákvörðum Pashinyan að reka einn æðsta yfirmann hersins úr embætti í mars á síðasta ári. Vildi Pashinyan meina að æðstu menn hersins væru að skipuleggja valdarán.

Pashinyan hefur verið undir miklum þrýstingi frá því að skrifað var undir friðarsamninga, fyrir milligöngu Rússa, sem fól meðal annars í sér að Armenar misstu landsvæði í hendur Asera – svæði sem Aserar höfðu misst í stríði landanna á tíunda áratugnum.

Sarkissian gagnrýndi það harðlega á sínum tíma að hann hafi ekki haft neina aðkomu að gerð friðarsamkomulagsins.

Áður en Sarkissian tók við embætti forseta hafði hann gegnt embætti sendiherra landsins í Bretlandi. Hann hafði sömuleiðis verið forsætisráðherra landsins á árunum 1996 til 1997.


Tengdar fréttir

Pashinyan heldur velli í Armeníu

Flokkur sitjandi forsætisráðherra Armeníu virðist vera sigurvegari þingkosninga þar í landi en fyrstu tölur voru birtar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×