Fótbolti

Hefur aldrei tapað leik með argentínska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emiliano Martinez lék sinn fyrsta landsleik 28 ára gamall en hefur eignað sér stöðuna með frábærri frammistöðu.
Emiliano Martinez lék sinn fyrsta landsleik 28 ára gamall en hefur eignað sér stöðuna með frábærri frammistöðu. EPA-EFE/Juan Ignacio Roncoroni

Emiliano Martinez hefur enn ekki kynnst tilfinningunni að tapa landsleik með Argentínu en Argentínumenn voru um helgina enn á ný á sigurbraut með hann í markinu.

Martinez náði reyndar ekki að halda markinu hreinu en Argentínumenn unnu þar 2-1 sigur á Síle.

Argentínska landsliðið hefur nú leikið fimmtán leiki í röð án þess að tapa með Emiliano Martinez í markinu.

Hann var varamarkvörður hjá Arsenal í áratug en fór til Aston Villa eftir að hafa hjálpað Arsenal að vinna enska bikarinn haustið 2020.

Þetta er annað tímabil Martinez með Aston Villa en hann fékk sitt fyrsta tækifæri með argentínska landsliðinu á síðasta ári.

Nú fimmtán leikjum síðar hefur hann aldrei tapað, aðeins fengið á sig átta mörk, unnið Suðurameríkutitilinn og gulltryggt sæti á HM 2022.

Í Suðurameríkukeppninni síðasta sumar þá varði Martinez þrjú víti í vítakeppni á móti Kólumbíu og hélt hreinu í úrslitaleiknum á móti Brasilíu. Hann var valinn markmaður mótsins.

Martinez náði því í nóvember að halda hreinu í sex landsleikjum í röð og í sjötta leiknum tryggði Argentína sér sæti á heimsmeistaramótinu í Katar.

Argentínska landsliðið hefur alls leikið 28 leiki í röð án þess að tapa en síðasta tap liðsins var fyrir næstum því þúsund dögum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×