Í morgun fór fram opinn fundur í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um stöðu mála í Helguvík. Kísilver United Silicon var gangsett þar í nóvember 2016 en var endanlega lokað aftur í apríl 2017 eftir að ekki tókst að koma í veg fyrir mengun frá starfseminni og snérust íbúar Reykjanesbæjar alfarið gegn henni.
Fyrirtækið fór á hausinn og er nú í eigu Arion banka sem hefur áhuga á að selja það til PCC sem á kísilverið á Bakka við Húsavík.
Friðjón Einarsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar var einn þeirra sem mætti fyrir nefndina í morgun. Hann rakti hrakfallasögu alls konar áforma um starfsemi iðjuvera í Helguvík allt frá því fyrir síðustu aldamótum. Áberandi athafnaleysi ríkisins varðandi málefni svæðisins væri ámælisvert að mati allra sveitarstjórnarmanna.
„Enginn stuðningur til sveitarfélagsins eins og ríkið hefur meðal annars veitt í Norðurþingi. Samfélagið eftir þessa þrjátíu ára sögu hefur glímt við fjárhagslegar afleiðingar. Svona til upplýsingar voru skuldir hafnarinnar fyrir rúmu ári níu milljarðar,“ segir Friðjón.
Neikvætt eigiðfé Helgavíkurhafnar hafi verið tæpir sex milljarðar króna. Friðjón segir í samtali við fréttastofu að staðan sé orðin betri nú. Bæjarfélagið hafi án aðkomu ríkisins unnið á skuldunum. Þær hafi farið úr rúmum milljarði í níu milljarða á árunum 2002 til 2016 en verið komnar niður í milljarð í fyrra. Á sama tímabili hafi eigið fé farið úr að vera neikvætt upp á 626 milljónir í 5,5 milljarða. Það hafi verið neikvætt í kring um milljarðinn í fyrra.
Þetta væri allt afleiðing þrjátíu ára stóriðjustefnu. Það væri kominn tími til að henda þeirri stefnu og hugsa málið upp á nýtt. Allar væntingar til kísilversins hefðu brugðist.
„Með ótrúlegum stuðningi íbúa og síðan Umhverfisstofnunar tókst okkur að stöðva þetta kísilver,“ sagði formaður bæjarráðs.
Kannanir meðal íbúa undanfarin ár sýni að yfirgnæfandi meirihluti þeirra væri á móti þessari starfsemi í Helguvík. Allir ellefu bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar væru á móti því að endurræsa kísilverið og vonandi næðust samningar við Arion banka um annars konar nýtingu lóðarinnar og hafnarinnar.
„Það er bara þannig að reynsla okkar af þessu verkefni er því miður á þann veg að það er enginn möguleiki á að ná sátt við samfélagið hérna í Reykjanesbæ,“ sagði Friðjón Einarsson á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun.