Þetta kemur fram í umfjöllun hollenskra og belgískra fjölmiðla um slysið mannskæða þar sem flugmaðurinn Haraldur Diego, YouTube-stjarnan Josh Neumann og Alings og Bellavia létust.
Bróðir Alings ræddi við hollenska fjölmiðilinn AD á dögunum. Þar sagði hann að hópurinn allur hafi verið mjög spenntur fyrir Íslandsferðinni, en þeir voru staddir hér á landi til að taka þátt í auglýsingaherferð fyrir belgíska fatalínu.
„Það er sorglegt að þetta hafi endað svona. Hann átti samt sem áður yndislega viku,“ sagði bróðir hans um Íslandsferðina.
Einnig er rætt við kærustu Alings, sem segir að Íslandsferðin hafi verið efst á óskalista hans yfir hluti til að gera eða upplifa, sem á ensku nefnist „bucketlist“.
Fjölskylda Alings er nú stödd á Íslandi og þakka þau viðbragðsaðilum og Íslendingum fyrir hlýjar mótttökur.
„Það eru allir svo yndislegir. Við fáum góðar upplýsingar um það sem er í gangi, það hjálpa okkur allir,“ segir bróðir hans.
Ræddi við Bellavia í síma stuttu fyrir flugtak
Hollenski miðilinn HLN ræðir einnig við sambýliskonu Belgans Nicola Bellavia sem var mikill ævintýramaður og þekktur fallhlífarstökkvari. Segist hún hafa rætt við Bellavia í síma skömmu fyrir flugtak ferðarinnar örlagaríku.
„Hann hljómaði svo hamingjusamur,“ segir hún í samtali við HLN. Er von á fjölskyldu hans til Íslands vegna málsins.
Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað töluvert um slysið á undanförnum dögum, ekki síst vegna andláts Joshs Neumann, sem var afar vinsæl YouTube-stjarna.
Í yfirlýsingu sem fjölskylda Neumans sendir frá sér í gær sagði að þrátt fyrir að hann hafi verið ungur að árum hafi hann lifað hvern einasta dag til fulls. Neuman hafi verið mikill ævintýramaður sem hafi trúað á hið góða í heiminum og á að hver einstaklingur geti lagt sitt af mörkum til að gera hann betri.