Bergsveinn segir, í samtali við Vísi, það rétt vera. Og það sem meira er þá beri túlka þetta sem svo að um sé að ræða viðurkenningu á þeirri aðferð sem hann hefur þróað sem er að byggja á heimildum, sýna þeim virðingu en miðla þannig að lesandi sé.
Eða eins og segir í umsögn þá er með þessari heiðursdoktorsnafnbót verið að heiðra skrif Bergsveins sem með bókum sínum miðlar norrænum menningararfi til almennra lesenda. Eða fyrir þá lesendur Vísis sem skilja norsku:
Dette er de nye æresdoktorene ved UiB:
Forfatter, PhD Bergsveinn Birgisson, for sitt forfatterskap, hvor han har gjort kunnskap om den norrøne kulturarven tilgjengelig for et bredt publikum. Birgisson skriver i spennet mellom forskningsformidling og skjønnlitteratur, og har bidratt sterkt til å holde interessen for, og fortolkningen av den norrøne historien levende. Bergsveinn Birgisson er foreslått av universitetsledelsen.
Í þessu samhengi er einkum verið að líta til Leitarinnar að svarta víkingnum, sem sannarlega hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu vegna ásakana Bergsveins á hendur seðlabankastjóra, Ásgeiri Jónssyni, að hann hafi gerst sekur um ritstuld við ritun bókar sinnar Eyjan hans Ingólfs, og svo bókina Maðurinn frá miðöldum. Bók sem fjallar um fyrsta sagnaritara Noregssögu, Íslendinginn Þormóð Torfason en sú bók kom út í Noregi 2020.
Fílabeinsturn akademíunnar riðar til falls
„Þetta hefur verið dílemma akademíunnar. Að þú sért að skrifa fyrir útvalinn lítinn hóp, félagana á ganginum, eins og sagt er,“ segir Bergsveinn. Hann bendir á að fyrir það fái menn stig innan akademíunnar og fjármagn. En engu slíku sé til að dreifa ef skrifað er fyrir almenning.
„Ég hef valið að fara út úr akademíunni til þess einmitt að geta verið frjáls frá þessari akademísku orðræðu en lærði handverkið og hef reynt að sýna því tryggð.“
Um er að ræða einn mesta heiður sem háskólinn veitir en í tilfelli Bergsveins er það svo að tilnefning hans kemur frá sjálfri stjórn háskólans, ólíkum deildum, sem bendir til þess að akademían vilji gjarnan brjótast úr þeim fílabeinsturni sem háskólar stundum eru sagðir vera í. En það er jú einmitt almenningur sem stendur undir fjármögnun þeirra.
„Mér finnst þetta skýr bending um að akademían sjálf er orðin meðvituð um það að mikið af þeim frábæru rannsóknum sem verið er að vinna, grunnrannsóknum, eru ekki að ná út til fólks.
Það vantar milliliðina, sem geta búið til sögu úr þessu og miðlað á mannamáli,“ segir Bergsveinn sem er norrænufræðingur en hans doktorsritgerð fjallaði um dróttkvæði.
Reynt að byggja brú milli fræða og almennings
„Ég hef fyrir mitt litla fag reynt að vera brúarbyggjari. Miðlað grunnrannsóknum annarra og reynt að búa til samhangandi sögu úr því og einhverju sem er skemmtilegt að lesa en sýnir vísindunum tryggð.“
Bergsveinn segir að hann viti til þess að ýmsir fræðimenn aðrir séu farnir að hugsa eftir þessum brautum en kerfið sé ekki komið þangað.
Verðlaununum fylgir fjárveiting til að standa straum að kostnaði við málþing hvar Bergsveinn ræður hverjir tala og hvað verður til umfjöllunar. Hann segist nú vera að leggja drög að því en hafi þegar augastað á ýmsum spennandi fræðimönnum. Sérstök athöfn verður 2. júní þegar Bergsveinn veitir heiðursdoktorsnafnbótinni viðtöku.