Mótmæli gegn sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda í Kanada vegna kórónuveirufaraldursins hafa staðið yfir síðan í janúar. Vörubílstjórarnir hafa mótmælt bólusetningarskyldu harðlega, ekki síst þar sem yfirleitt er stór hluti vörubílstjóra í Kanada aðflutt vinnuafl, en nú geta erlendir verkamenn ekki ferðast til Kanada án fullrar bólusetningar gegn kórónuveirunni.
Mótmælin hófust upprunalega eftir að vörubílstjórar tóku að mótmæla bólusetningarskyldu við komuna inn í landið en með tímanum hafa fleiri bæst við sem almennt mótmæla hvers kyns takmörkunum sem nú eru í gildi.
Dómstóll þar í landi úrskurðaði nýverið að mótmælum skyldi hætt en vörubílstjórar og aðrir mótmælendur virðast lítið hafa tekið mark á niðurstöðu dómstólsins.
Nú hefur lögreglan í Ottawa hótað aðgerðum og segir mótmælendum að yfirgefa svæðið, ella verði þeir handteknir. Lögreglumenn hafa sett upp sérstakar eftirlitsstöðvar og engum er heimilt að komast inn á það svæði, hvar mest er mótmælt, án lögmætrar ástæðu. Gripið var til ráðstafananna til að sporna gegn auknum fjölda mótmælenda.
Lögreglan hefur ekki gefið út nánari upplýsingar um hvenær til standi að grípa til aðgerða gegn mótmælendum en tilkynningin kemur aðeins fáeinum dögum eftir að Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, greip til sérstakra neyðarlaga.
Neyðarheimildirnar fela meðal annars í sér að hægt verði að frysta reikninga þeirra sem mótmælunum tengjast án þess að til þurfi að koma dómsúrskurður. Þá geta yfirvöld gert bíla og önnur farartæki í eigu mótmælenda upptæk.