Innlent

Brynjar þrá­spurði Jón Trausta um hvort Stundin væri með gögnin úr síma Páls

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri Stundarinnar og Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra ræddu málin á Sprengisandi í dag.
Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri Stundarinnar og Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra ræddu málin á Sprengisandi í dag. Samsett

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, þráspurði Jón Trausta Reynisson, framkvæmdastjóra Stundarinnar um hvort að fjölmiðlinn hefði gögn úr síma Páls Steingrímssonar undir höndum. Brynjar telur að blaðamennirnir fjórir sem hafa réttarstöðu grunaðra væru ekki með slíka réttarstöðu ef málið snerist eingöngu um nýtingu blaðamanna á gögnum.

Brynjar og Jón Trausti voru gestir Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi í Bylgjunni þar sem þeir tókust á um hvort réttlætanlegt væri að fjórir blaðamenn hafi fengið réttarstöðu sakbornings vegna meintra brota á ákvæðum hegningarlaga um friðhelgi einkalífsins.

Í maí síðastliðnum birtust fréttir um skilaboðasendingar milli meðlima „skæruliðadeildarinnar“ í Kjarnanum og Stundinni, sem ritaðar voru af Þórði Snæ Júlíussyni ritstjóra Kjarnans og Arnari Þór Ingólfssyni blaðamanni á Kjarnanum og Aðalsteini Kjartanssyni blaðamanni á Stundinni. Þeir þrír eru með réttarstöðu sakbornings þessa stundina, ásamt Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks.

Þegar umfjöllun Kjarnans og Stundarinnar birtist kom fram í yfirlýsingu frá lögmanni Samherja að umræddum gögnum hefði verið stolið af tölvu og síma Páls Steingrímssonar, starfsmanns Samherja, og að málið hefði verið kært til lögreglu. Það dró svo til tíðinda á dögunum þegar blaðamennirnir fjórir voru boðaðir til yfirheyrslna hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra sem rannsakar málið.

Á öndverðum meiði

Segja má að Jón Trausti og Brynjar hafi verið á öndverðum meiði í Sprengisandi í dag. Brynjar vildi meina að málið væri í eðlilegum farvegi hjá lögreglu á meðan Jón Trausti lagði áherslu á að mikilvægt væri að blaðamenn nytu verndar.

„Út um allan heim er blaðamennska eitthvað sem lýðræðisríki reyna að verja með lögum og túlkun laga eða eitthvað sem yfirvöld eða hagsmunaaðilar reyna að sækja að vegna þess að blaðamennska er til óþæginda fyrir þá aðila,“ sagði Jón Trausti.

„Þetta eru bara leikreglur við rannsóknir mála og svo allt í einu þegar kemur að einhverjum fjölmiðlamönnum þá er bara allt komið á annan endann í samfélagið. Ég skil það ekki,“ sagði Brynjar sem hélt því fram að viðbrögð blaðamanna og stjórnmálamanna við aðgerðum lögreglu í málinu fælu í sér aðför að störfum lögreglu. Vísaði hann þar sérstaklega í mótmæli sem fram fóru í Reykjavík og Akureyri í gær.

Jón Trausti sagðist hins vegar hafa meiri áhyggjur af stöðu blaðamanna heldur en stöðu lögreglunnar.

„Ég hef bara almennt í heimssögunni eða í samhengi alls heimsins miklu minni áhyggjur af stöðu lögreglunnar heldur en stöðu blaðamennskunnar. Sagan sýnir að það er tilefni til,“ sagði Jón Trausti.

„Þið eruð svo sjálhverf að það hálfa væri nóg,“ svaraði Brynjar Jóni Trausta.

Kristján þáttastjórnandi skaust þá í leikinn og sagði að Brynjar mætti ekki afgreiða þetta mál svo létt.

„Við erum að tala um grundvallaratriði. Hvenær mál eiga erindi til almennings, hvaða aðferðum má beita?“ spurði Kristján Brynjar.

„Af hverjum erum við að tala um það í kringum þessa rannsókn? Það er bara önnur umræða,“ svaraði Brynjar.

Benti Kristján þá Brynjari á að blaðamönnum hefði verið borið á brýn að hafa nýtt þessu gögn. Vísaði hann þar í orð Þórðar Snæs ritstjóra Kjarnans um hvað lögregla hefði sagt við hann að málið snerist um.

„Nei, þetta er bara rangt Kristján. Þeim hefur ekkert sérstaklega verið borið á brýn að hafa bara nýtt þessi gögn. Þeir væru ekki sakborningar að mínu viti ef það væri eina atriðið í þessu máli,“ sagði Brynjar.

Spurði fjórum sinnum hvort Stundin væri með gögnin

Áður í viðtalinu hafði Jón Trausti spurt Brynjar hvort að hann hefði einhverjar meiri upplýsingar um málið en aðrir. Brynjar svaraði því neitandi og sagðist hafa engar upplýsingar aðrar en þekkingu á þeim leikreglum sem gildi um rannsóknir sakamála.

Undir lok þáttarins nýtti Brynjar svo tækifærið til að spyrja Jón Trausta hvort að Stundin hefði gögnin úr síma Páls undir höndunum.

„Það sem mig langar til að spyrja Jón Trausta, því að Stundin er hér. Eruð þið með þessi gögn ennþá? Persónuleg gögn þessa skipstjóra og eruð með enn þá upp á skrifstofu og lögreglan getur ekki fengið, skoðað þessi gögn, nema fá dómsúrskurð og svo kannski sitja menn upp á fjölmiðlum með þessu gögn. Finnst mönnum það allt í lagi? Ég spyr ykkur fjölmiðlamenn, ertu með þessu gögn?“

„Ertu að spyrja eða fullyrða eða ertu að ýja að einhverju?“ svaraði Jón Trausti.

„Ég er að spyrja hvort þú sért með þessi gögn undir þínum höndum?“

„Þú ert náttúrulega lögfræðimenntaður og veist að við erum reglulega að vísa til 25. greinar fjölmiðlaga þar sem okkur er beinlínis óheimilt að tjá okkur um gögn okkar. Ég ætla ekki að láta draga mig inn í það,“ svaraði Jón Trausti.

„Ég spyr þig, eruð þið með þessi gögn ennþá undir höndum?“ spurði Brynjar þá enn.

„Nú erum við alltaf að tala um hvað við erum að gera rangt hérna sem blaðamenn. Þið ættuð kannski að horfa í eigin barm með það hvernig þið eruð að tjá ykkur um dómsmál og lögreglurannsókn sem er yfirstandandi í samhengi þessa alls. Það er mjög óþægilegt fyrir blaðamenn að fá á sig valdhafa í svona umræðu. Þið þurfið ekkert að gera þetta. Þið þurfið ekkert að vera að ræða þetta,“ svaraði Jón Trausti og vísaði þar meðal annars til stöðufærsla Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins um málið.

Hlusta má á umræðurnar í heild sinni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Blaða­mönnum al­mennt frjálst að vinna úr illa fengnum gögnum

Héraðsdómari og sérfræðingur í fjölmiðlarétti segir ýmsar ástæður fyrir því að lögregla geti viljað fá blaðamenn í skýrslutökur og segir fordæmi fyrir því. Formanni Blaðamannafélagsins finnst rannsókn lögregu á fréttaflutningi af skæruliðadeild samherja tilraun til að beita blaðamenn þrýstingi.

Skæru­liða­deildin sem nú vill ná vopnum sínum

Fjórir íslenskir blaðamenn hafa verið boðaðir til yfirheyrslu af lögreglu vegna umfjöllunar þeirra um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja. En hver er þessi deild, hvað gerði hún og hvers vegna er málið nú til rannsóknar hjá lögreglu?

Óskar eftir úr­skurði um lög­mæti að­gerða lög­reglu­stjóra

Lögmaður Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni og eins þeirra sem lögreglustjórinn á Norðurlandi hefur veitt réttarstöðu sakbornings vegna umfjöllunar um „skæruliðadeild“ Samherja, hefur afhent Héraðsdómi Norðurlands eystra kæru þar sem farið er fram á úrskurð um lögmæti aðgerða lögreglustjórans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×