Enski boltinn

Búist við brottrekstri og tilraun til að taka við Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Mauricio Pochettino og Kylian Mbappé í Madrid í gærkvöld. Þeir virðast báðir vera á förum frá PSG.
Mauricio Pochettino og Kylian Mbappé í Madrid í gærkvöld. Þeir virðast báðir vera á förum frá PSG. Getty/David Ramos

Örlög Mauricio Pochettino hjá PSG virðast endanlega ráðin eftir að liðið féll enn á ný snemma úr leik í Meistaradeild Evrópu í fótbolta, með tapinu gegn Real Madrid í 16-liða úrslitum í gær.

Þetta fullyrðir meðal annars franska stórblaðið L‘Equipe og fleiri taka í sama streng. L‘Equipe segir að með sigri gegn Real Madrid hefði Pochettino mögulega getað náð vendipunkti sem stjóri PSG en nú megi gera ráð fyrir því að hann yfirgefi félagið eftir eina verstu leiktíð frá því að félagið fór í eigu katarskra olíufursta.

Real Madrid vann 3-1 sigur gegn PSG í gærkvöld og einvígi liðanna þar með 3-2.

Mögulega fær Pochettino að klára tímabilið með PSG en yfirburðir liðsins í frönsku deildinni eru slíkir að nær óumflýjanlegt virðist að liðið verði franskur meistari. PSG er þrettán stigum á undan næsta liði, Nice, þegar ellefu umferðir eru eftir.

Vildi ekki ræða framtíð sína og Mbappé

Pochettino er með samning við PSG sem gildir fram til ársins 2023 en nær útilokað virðist að hann starfi svo lengi hjá félaginu.

Breska blaðið The Telegraph segir að verði Pochettino látinn fara þá muni hann sækjast eftir því að taka við Manchester United sem er í leit að stjóra til að taka við liðinu í sumar. Pochettino hefur lengi verið í sigti United en ekki er ljóst hvort hann er efstur á blaði og hvort að úrslitin í gær hafi þar einhver áhrif.

Pochettino var í gærkvöld spurður út í framtíð sína sem og framtíð Kylians Mbappé, sem sagður er á leið til Real Madrid í sumar, en sagðist ekkert vilja tjá sig. Hann væri einfaldlega mjög vonsvikinn og að ekki væri tímabært að ræða þessi mál núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×