Í fjórða pakkanum voru kynntar enn grófari viðskiptaþvinganir sem Evrópusambandið mun beita gegn Rússum.
Bæði Bandaríkin og Japan munu grípa til sambærilegra aðgerða.
Hærri tollar á rússneskar vörur
Helsta aðgerðin er sú að afnema svokallaða bestu-kjara-meðferð Rússlands í alþjóðlegum viðskiptum.
„Í framkvæmd mun þetta leiða til þess að tollar á rússneskar vörur, sem hafa nú þegar ekki verið bannaðar, tollar á rússneskar vörur munu hækka verulega,“ segir Finnur Magnússon doktor í þjóðarétti og aðjúnkt við Háskóla Íslands.
Kanadamenn hafa þegar gripið til sömu aðgerða og hækkuðu í kjölfarið tolla á rússneskum vörum um 35 prósent.
Það er enn óljóst með öllu um hve mikið Evrópusambandið mun hækka tolla á rússneskar vörur.
Fréttastofa fylgdist grannt með gangi mála í Úkraínu í dag. Hægt er að lesa um það helsta sem gerðist í vaktinni hér að neðan:
Ísland fylgi líklega á eftir
„Þessi nýi þvingunarpakki, ef svo má kalla, er mjög nýr. Hann var náttúrulega bara kynntur í gær. En íslensk stjórnvöld hafa fylgt Evrópusambandinu við innleiðingu þvingunaraðgerða og miðað við það sem á undan er gengið er ekki óeðlilegt að eitthvað sambærilegt myndi fylgja af hálfu íslenskra stjórnvalda,“ segir Finnur.
Þá segjast ríkin einnig ætla að beita sér fyrir því að afnema réttindi Rússlands í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum.
„Þessar aðgerðir framkvæmdastjórnarinnar og Bandaríkjanna og Japan munu leiða til þess að Rússar munu ekki geta fengið lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að bregðast við þeirri efnahagskrísu sem nú er yfirvofandi,“ segir Finnur.
En hvað þýðir það fyrir Rússa?
„Það er fyrirséð að Rússland mun væntanlega leita á náðir Kína eða jafnvel Indlands. En það er með öllu óvíst hvernig þessi ríki munu bregðast við þegar svigrúm rússneskra stjórnvalda er orðið svona þröngt,“ segir Finnur.