Innherji

Lilja boðar breytingu á skattaumhverfi frjálsra fjölmiðla

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hanna Katrín Friðriksson var málshefjandi í sérstakri umræðu í þinginu um starfsumhverfi fjölmiðla sem lauk á þinginu fyrir skömmu.
Hanna Katrín Friðriksson var málshefjandi í sérstakri umræðu í þinginu um starfsumhverfi fjölmiðla sem lauk á þinginu fyrir skömmu.

Sérstök umræða um stöðu fjölmiðla fór fram á þinginu fyrr í dag. Þingflokksformaður Viðreisnar var málshefjandi. Flestir sammála um fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og kölluðu eftir heildstæðri stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu. Ráðherra boðar skattaaðgerðir en vill ekki stofna „enn eina nefndina” til að greina stöðuna.

Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar stofnaði til sérstakrar umræðu um stöðu fjölmiðla á Íslandi þar sem hún beindi spurningum sínum til ráðherra málaflokksins, Lilju Alfreðsdóttur. Hanna Katrín lagði í ræðu sinni áherslu á samkeppnisstöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði og aðgerðir stjórnvalda þar að lútandi. Að hennar mati væri nauðsynlegt að ræða samhliða stuðning við einkarekna fjölmiðla, skattlagningu erlendra miðla og stöðu RÚV á auglýsingamarkaði.

„Þingmál sem varða fjölmiðlamarkaðinn eru yfirleitt lögð fram án tillits til heildarmyndarinnar. Útkoman verður bútasaumskennt rekstrarumhverfi. Ég hef saknað þess að ríkisstjórnin hafi rætt þessa heildarmynd,” sagði Hanna Katrín.

Sigmar Guðmundsson, samflokksmaður Hönnu Katrínar, lagði einmitt nýlega fram þingsályktunartillögu um heildarendurskoðun rekstrarumhverfis fjölmiðla þar sem þingið myndi fela ráðherranum að skipa starfshóp um heildræna endurskoðun á fjölmiðlamarkaði á Íslandi með það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu fjölmiðla hvort sem þeir eru íslenskir, erlendir, í einkaeigu eða í eigu ríkisins.

Lilja vandaði þingflokki Viðreisnar hins vegar ekki kveðjurnar í umræðunni. „Viðreisn gat ekki stutt einkarekna fjölmiðla á síðasta þingi því hann var enn og aftur í pólítískum leik,” sagði Lilja.

„Ég er ekki á því að það eigi að stofna enn eina nefndina eins og þingflokkur viðreisnar leggur til. Þetta er allt til. Það er algjör óþarfi að stofna enn eina nefndina um sjálfsagða hluti. Það er að fara af stað á vegum fjármálaráðherra að breyta þessu skattalega umhverfi og jafna stöðuna. Við höfum farið yfir það og munum tilkynna um þær niðurstöður og munum fara í samanburðarrannsókn á því hvernig þetta kemur til með að líta út,” sagði Lilja.

Lilja sagðist líta sérstaklega til Danmerkur. „Rekstarumhverfið sem hugnast mér best er í Danmörku. Í fyrsta lagi eru Danir með öflugt ríkisútvarp en eru að endurskoða það umhverfi og ríkisútvarpið þeirra er ekki á auglýsingamarkaði. Í öðru lagi eru Danir með betra skattalegt umhverfi sem ég tel að við eigum að innleiða og talaði fyrir á síðasta kjörtímabili,” sagði Lilja og sagðist hafa saknað þess að fleiri tækju undir með málflutningi hennar þá.

Í þriðja lagi sagði Lilja Dani halda úti stuðningu við einkarekna miðla. „Sambærilegum stuðningi og við innleiddum á síðasta kjörtímabili. Það er miður að umræðan hafi farið í pólístískar skotgrafir þá,” sagði hún.

Þingmennirnir Sigmundur Davíð og Jóhann Páll Jóhannsson voru meðal þeirra sem kvöddu sér hljóðs í umræðunni um fjölmiðla.

Almennar áhyggjur af fyrirferð RÚV og stefnuleysi

Fulltrúar fleiri flokka tóku til máls í umræðunni. Þeir áttu það margir sammerkt að hafa áhyggur af fyrirferð RÚV á fjölmiðlamarkaði auk þess sem margir óskuðu eftir stefnu af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði til að mynda af hverju engin heildstæð stefna væri til. „Af hverju er stefnan ekki komin? Af hverju er ekki búið að innleiða hana eftir að ríkisstjórnin hefur setið lengur en heilt kjörtímabil? Það er því ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um hvað þarf að gera,” sagði Sigmundur sem sagði málinu hafa verið reddað fyrir horn á síðasta kjörtímabili.

„Með sérstökum styrkjum sem eru tímabundnir. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu áherslu á það. Mér þykir ekki ólíklegt að sú tímabundna ráðstöfun haldi eitthvað áfram hvað sem líður yfirlýsingum þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Allavega er það sennilega líklegra en að von sé á raunverulegri stefnu og breytingum á starfsumhverfi fjölmiðla,” sagði Sigmundur.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi fjölmiðlamaður benti á að styrkjakerfið rynni út árið 2022. „Hjá einkareknum fjölmiðlum ríkir algjör óvissa,” sagði Jóhann og benti á að varla væri stafkrókur um málið í fjármálaáætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×