Umboðsmaður Alþingis birti nýverið skýrslu um aðstæður á bráðageðdeild 32C á Landspítala, þar sem því var meðal annars beint til stjórnvalda að skoða réttarstöðu nauðungarvistaðra og inngrip í réttindi þeirra og að bæta aðbúnað á deildinni.
„Það eru ábendingar sem koma frá umboðsmanni sem koma víðar frá, til dæmis varðandi húsnæðismálin, sem er erfitt fyrir okkur að gera eitthvað með. En okkar hlutverk er að gera eins og umboðsmaður Alþingis, að benda á – þetta eru algjörlega óviðunandi aðstæður, sem okkar notendur þurfa að búa við þegar þeir leggjast inn á sjúkrahúsið,“ segir Nanna Briem forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans.
Þá hafi ítrekað verið bent á að skýra þurfi lagarammann gagnvart nauðung og þvingandi meðferð.
„Við höfum bent á þetta í fjöldamörg ár,“ segir Nanna.
Húsnæði bráðageðdeildar var endurnýjað árið 2013 en engu að síður hefur það verið gagnrýnt og ráðgjafi nauðungarvistaða líkti því í fréttum okkar í vikunni við gæsluvarðhaldsgang.
„Það er bara svo einfalt að það þarf að byggja upp nýtt geðsjúkrahús.“
Greint var frá því í fréttum okkar í vikunni að ráðgjafar nauðungarvistaðra hafi séð eins marga nauðungarvistaða og þessa fyrstu þrjá mánuði ársins. Nanna segir erfitt að skýra það en að þetta komi oft í bylgjum, ekki síst nú eftir að samkomutakmörkunum var aflétt. Til að mynda hafi gríðarlegt álag verið á bráðamóttöku geðþjónustunnar og met slegið um síðustu helgi.
„Svo getur það allt í einu breyst, við bara erum að fylgjast grannt með og skoða hvort þetta sé einhver breyting eða hvort þetta fari aftur í sama horfið og fyrir Covid,“ segir Nanna.