Á vef Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins segir: „Vínbúðirnar verða lokaðar á skírdag, föstudaginn langa, páskadag og annan í páskum skv. venju.“
Þetta þýðir að ekki er hægt að kaupa vín eftir hefðbundnum leiðum á næstu dögum, nema á laugardag. Á frídögunum er það hægt eftir óhefðbundnum leiðum.
Danska vefverslunin Desma hefur ákveðið að vera með opið alla páskana og heimsendingartími á höfuðborgarsvæðinu eru nítíu mínútur. Bjór, vín, gin, vodka, allt sem hugurinn girnist. Ísak Óli Helgason er eigandi fyrirtækisins.
„Vínbúðin má náttúrulega bara gera það sem hún vill, af því að það er enginn annar sem fólk myndi fara til í staðinn, eins og þetta er venjulega. Það náttúrulega er ekki alveg ásættanlegt að það yrði ekki möguleiki,“ segir Ísak Óli í samtali við fréttastofu.
En má þetta bara, gæti einhver spurt. Já, það má panta vín af erlendum vefverslunum og þar gildir einu hvort þær séu með lager á Íslandi.
„Ég ber þetta oft saman við það ef þú ferð inn á Amazon.com og pantar þér rauðvín og lætur senda það til Íslands, þá er þetta ekki ósvipað,“ segir Ísak Óli.
Það eru þó ekki allir á eitt sáttir um þetta sem verður að kalla ákveðna glufu í lögunum og ÁTVR hefur raunar staðið í dómsmálum gegn fyrirtækjum í sambærilegri starfsemi. Þar hafa dómar þó fallið fyrirtækjunum í vil; og ÁTVR hefur hætt við að áfrýja þeim. Á meðan eru þessir dönsku kaupmenn með vefverslanir í blússandi viðskiptum óáreittir af íslenskum yfirvöldum, viðskiptavinum til heilla, segir Ísak.
Uppfært: Nýja Vínbúðin er einnig með sambærilega þjónustu í boði og með opið alla páskana, samanber myndina hér efst.