Sport

Wimbledon stefnir á að banna kepp­endur frá Rúss­landi og Hvíta-Rúss­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verði af banninu mun Daniil Medvedev ekki keppa á Wimbledon en hann er sem stendur í 2. sæti heimslistans.
Verði af banninu mun Daniil Medvedev ekki keppa á Wimbledon en hann er sem stendur í 2. sæti heimslistans. Megan Briggs/Getty Images

Eitt virtasta tennismót heims stefnir á að banna keppendum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi að taka þátt í ár vegna innrásar Rússlands í Úkraínu og stuðnings Hvíta-Rússlands við innrásina. Frá þessu er greint á vef New York Times.

Í grein NY Times kemur fram að ekki sé búið að staðfesta bannið en að háttsettur aðili innan alþjóðatennissambandsins hafi sagt að það yrði gert fyrr heldur en síðar. Wimbledon er eitt fjögurra stórmóta í tennis og á að hefjast seint í júnímánuði.

Fari svo að bannið taki gildi er ljóst að þónokkrir sterkir keppendur munu ekki taka þátt á mótinu í ár. Alls eru fjórir Rússar ofarlega á heimslistanum karla megin, þar á meðal Daniil Medvedev sem situr í 2. sæti listans.

Þá er Aryna Sabalenka frá Hvíta-Rússlandi í 4. sæti listans kvenna megin og Anastasia Pavlyuchenkova frá Rússlandi situr í 15. sæti listans.

Wimbledon yrði fyrsta mótið síðan innrásin hófst til að banna keppendum frá þessum tveimur þjóðum. Keppendur frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi hafa keppt sem einstaklingar án þjóðernis á þeim mótum sem fram hafa farið síðan Rússland réðst inn í Úkraínu í febrúar.

Það verður að öllum líkindum ekki í boði á Wimbledon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×