Viðskipti innlent

Í­búða­verð stig­magnast þvert á væntingar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ekkert lát er á verðhækkunum á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.
Ekkert lát er á verðhækkunum á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Íbúðaverð hækkaði um 3,1 prósent á milli febrúar og mars. Verðhækkanir milli mánaða hafa aukist á  síðustu mánuðum, þvert á væntingar.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans þar sem vísað er í nýbirtar tölur Þjóðskrár um vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.

Hækkunin nú í mars var sú mesta milli mánaða síðan í mars í fyrra. Fjölbýli hækkaði um 2,8 prósent og sérbýli um 3,9 prósent.

„Þessi hækkun verður að teljast mjög mikil, eða sú mesta síðan í mars í fyrra, og hafa hækkanir stigmagnast það sem af er þessu ári,“ segir í Hagsjánni þar sem kemur fram að þessi mikla hækkun sé þvert á væntingar.

Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs mælist 22,2 prósent, samanborið við 22,5 prósent í febrúar.

Hagfræðideild Landsbankans gerir þó ráð fyrir að innan tíðar muni hækkanir íbúðaverðs verða hófstilltari, bæði vegna hækkunar stýrivaxta og þar með minni eftirspurnar en einnig vegna aukins framboðs. Það muni styðja við hjöðnun verðbólgunnar, sem mælist nú 6,7 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×