Fótbolti

Hlín skoraði sigur­mark Piteå

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hlín skoraði sigurmarkið í dag.
Hlín skoraði sigurmarkið í dag. Andreas Sandström/Bildbyrån

Hlín Eiríksdóttir reyndist hetja Piteå sem vann 1-0 útisigur á IF Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Íslendingalið Kristianstad og Kalmar máttu bæði þola 0-1 tap.

Markið skoraði Hlín eftir 40 mínútur og reyndist það eina mark leiksins. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem Hlín skorar sigurmark Piteå. Hlín lék ekki allan leikinn en hún var tekin af velli þegar 11 mínútur voru til leiksloka.

Íslendingalið Kristanstad tapaði nokkuð óvænt 1-0 fyrir Djurgården. Amanda Andradóttir spilaði allan leikinn í liði Elísabetar Gunnarsdóttur. Emelía Óskarsdóttir sat á bekknum frá upphafi til enda.

Hallbera Guðný Gísladóttir spilaði allan leikinn er Kalmar tapaði 1-0 fyrir Eskilstuna United og þá spilaði Agla María Albertsdóttir tæpan stundarfjórðung er meistarar BK Häcken gerðu markalaust jafntefli við Vittsjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×