Ástæðan er sú að ný kosningalög kveða á um að öll framboð séu komin fram þegar utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst en þannig var það ekki áður.
„Það sem af er degi hafa 421 kosið hjá okkur hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og frá því við opnuðum eru 2800 búnir að kjósa og á landinu öllu eru 4063, sem hafa kosið frá opnun,“ sagði Sigríður Kristinsdóttir sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Fleiri hafa nú kosið á höfuðborgarsvæðinu einu en á sama tíma á landinu öllu árið 2018.
„Já, 2018 voru 2163 sem höfðu kosið,“ segir hún. Hún segir meiri utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Alþingiskosningum en í sveitarstjórnarkosningum.
„Sveitarstjórnarkosningarnar eru öðruvísi, þær eru nær samfélaginu, þannig að fólk vill kannski mæta á kjörstað á kjördag.“
Opið verður alla daga vikunnar fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu á höfuðborgarsvæðinu í verslunarmiðstöð Holtagarða frá klukkan 10 á morgnanna til klukkan 22 á kvöldin. Á kjördag verður svo opið frá klukkan 10 til 17 fyrir þá sem eru á kjörskrá annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu.