Arnór endaði leikinn með fimm mörk, fjórar stoðsendingar og fjóra stolna bolta. Hjá HB Statz var hann besti maðurinn, besti sóknarmaðurinn og besti varnarmaðurinn í leiknum.
Það er eins og Arnór hafi hreinlega skipt um gír þegar úrslitakeppnin byrjaði. Hann var að skora 1,6 mörk í leik í deildarkeppninni en er með 4,2 mörk að meðaltali í leik í fyrstu sex leikjunum í úrslitakeppninni.
Arnór skoraði 36 mörk samtals í 22 leikjum í deildinni og er aðeins ellefu mörkum frá því að jafna þá tölu í fyrstu tveimur umferðum úrslitakeppnina, kominn með 25 mörk í sex leikjum.
Frammistaða þessa tvítuga stráks var ekki síst mikilvæg eftir að Sigtryggur Daði Rúnarsson meiddist í leik tvö á móti Haukum. Í síðustu tveimur leikjum án Sigtryggs þá var Arnór með 75 prósent skotnýting (9 af 12) og gaf að auki sjö stoðsendingar.
Það er einkum frábær skotnýting hans sem skyttu sem vekur athygli. Til að skora þessi 25 mörk sín í úrslitakeppninni þá hefur kappinn aðeins þurft að taka þrjátíu skot. Hann er því aðeins búinn að klikka á fimm skotum alla úrslitakeppnina en minna en eitt misheppnað skot að meðaltali í leik.
Arnór hefur fyrir löngu skapað sér nafn sem öflugur varnarmaður fyrir Eyjaliðið en það er ánægjuefni fyrir Eyjamenn að hann sé líka farinn að láta til sín taka í sóknarleiknum.
- Arnór Viðarsson í úrslitakeppninni:
- Leikur eitt á móti Stjörnunni: 7 mörk (88% skotnýting) og 2 stoðsendingar
- Leikur tvö á móti Stjörnunni: 7 mörk (100% skotnýting) og 1 stoðsending
- Leikur eitt á móti Haukum: 1 mark (50% skotnýting) og 0 stoðsendingar
- Leikur tvö á móti Haukum: 1 mark (100% skotnýting) og 0 stoðsendingar
- Leikur þrjú á móti Haukum: 4 mörk (80% skotnýting) og 3 stoðsendingar
- Leikur fjögur á móti Haukum: 5 mörk (71% skotnýting) og 4 stoðsendingar