Fótbolti

Freyr þakk­látur að fara upp með Lyng­by-fjöl­skyldunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lyngby og stuðningsfólk félagsins að leik loknum.
Lyngby og stuðningsfólk félagsins að leik loknum. Twitter@LyngbyBoldklub

Freyr Alexandersson stýrði Lyngby upp úr dönsku B-deildinni á sínu fyrsta tímabilið með liðið. Lyngby endaði á endanum í öðru sæti deildarinnar, aðeins stigi á eftir toppliði Horsens.

Lyngby tók á móti Fredericia í lokaumferð dönsku B-deildarinnar í gær. Mikið var um dýrðir enda ljóst að liðið væri komið upp í deild þeirra bestu á nýjan leik. 

Möguleikinn á að fara upp sem deildarmeistarar var enn til staðar en á endanum dugði 1-0 sigur ekki til þar sem Horsens gerði jafntefli við Hvidovre og vann deildina.

Freyr tjáði sig á samfélagsmiðlum eftir leik: „Einstakur dagur á Lyngby-vellinum. Ég er ótrúlega þakklátur að hafa fengið tækifæri til þess að fara upp um deild með Lyngby-fjölskyldunni.“

Þá hrósaði hann Lasse Fosgaard en sá er að yfirgefa Lyngby eftir áratug hjá félaginu.

„Það að geta kvatt goðsögnina Lasse Fosgaard skiptir okkur öllu máli. Öll lið þurfa á leikmanni eins og Fos að halda, hann er sannkallaður liðsmaður.“

„Við erum með rosalega góðan kjarna stuðningsfólks, klárlega besta kjarnann í fyrstu deildinni. Við fáum að meðaltali þrjú þúsund manns á völlinn á leikdegi og öll upplifun í kringum leikdag hjá Lyngby er algjörlega geggjuð,“ sagði Freyr í viðtali við Vísi fyrir áramót

Það átti heldur betur við um helgina er liðið fagnaði sæti í efstu deild en alls mættu 7139 manns á leikinn. Fjallað var um leikinn í íþróttafréttum Stöðvar 2 á sunnudagskvöld.


Tengdar fréttir

„Held ég hafi verið valinn því ég vissi hvað virkaði“

Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby í dönsku B-deildinni í knattspyrnu, hefur þrátt fyrir ungan aldur áorkað miklu hér á landi sem og erlendis. Hann á bæði súrar sem og frábærar minningar frá tíma sínum með íslensku A-landsliðinum.

Fyrirliði Freys missti eiginkonu sína

Marcel Römer, fyrirliði danska knattspyrnufélagsins Lyngby, er kominn í leyfi um óákveðinn tíma eftir að eiginkona hans, Cecilie, lést á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×