Fótbolti

Freyr sækir leik­mann ársins til Lyng­by

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Freyr er þegar hafinn að styrkja leikmannahóp Lyngby.
Freyr er þegar hafinn að styrkja leikmannahóp Lyngby. Twitter@LyngbyBoldklub

Freyr Alexandersson hefur þegar hafið undirbúning fyrir sitt fyrsta tímabil með Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Hann er við það að fá markahæsta leikmann B-deildarinnar til liðs við félagið sem þýðir aukin samkeppni fyrir Sævar Atla Magnússon.

Freyr tók við Lyngby síðasta sumar og stýrði liðinu rakleiðis upp í dönsku úrvalsdeildina á nýjan leik. Lærisveinar Freys voru aðeins stigi frá því að fara upp sem deildarmeistarar en það hindraði ekki gríðarlegan fögnuð liðsins og stuðningsfólks eftir lokaleik tímabilsins.

Freyr veit þó að það þarf að styrkja liðið ætli Lyngby sér ekki að fara beint aftur niður og hann hefur því þegar hafið leit að nýjum leikmönnum. Kampavínið var vart búið er danski miðillinn Bold greindi frá því að Lyngby færi í þann mund að semja við Mathias Kristensen.

Sá lék með Nykøbing á síðustu leiktíð og endaði sem markahæsti leikmaður dönsku B-deildarinnar með 18 mörk. Þá var hann einnig valinn besti leikmaður deildarinnar.

Tilkoma Kristensen þýðir meiri samkeppni fyrir Sævara Atla sem Lyngby keypti frá Leikni Reykjavík skömmu eftir að Freyr tók við. Hinn 21 árs gamli Sævar Atli kom við sögu í 29 leikjum á nýafstaðinni leiktíð, skoraði fjögur mörk og lagði upp þrjú til viðbótar.

Sævar Atli lék vel með Lyngby á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.Twitter/@LyngbyBoldklub



Fleiri fréttir

Sjá meira


×