Fótbolti

Crawl­ey Town reyndi að ráða þjálfara Eng­lands­- og bikar­meistara Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emma Hayes fagnar sigri í FA bikarnum á dögunum. Liðið vann tvöfalt í ár.
Emma Hayes fagnar sigri í FA bikarnum á dögunum. Liðið vann tvöfalt í ár. EPA-EFE/NEIL HALL

Crawley Town sem leikur í ensku D-deildinni íhugaði að ráða Emmu Hayes, þjálfara Englands- og bikarmeistara Chelsea. Hún afþakkaði pent.

Hin 45 ára gamla Hayes hefur stýrt Chelsea í áratug. Undir hennar stjórn hefur Chelsea orðið að besta liði Englands en liðið hefur nú unnið ensku úrvalsdeildina undanfarin þrjú tímabil.

Alls hefur Hayes fimm sinnum stýrt liðinu til sigurs í efstu deild. Ofan á það hefur liðið unnið FA-bikarinn fjórum sinnum og deildarbikarinn tvisvar.

Það kemur því ekki á óvart að lið karla megin íhugi að reyna sannfæra Hayes um að taka við enda augljóslega um mjög færan þjálfara að ræða.

Forráðamenn Crawley Town hafa greinilega ekki fylgst vel með fréttum undnafarið ár eða svo þar sem það er ekki það langt síðan AFC Wimbledon – sem leikur deild ofar en Crawley – reyndi að fá Hayes til að skipta um starfsvettvang.

Hayes benti Wimbledon einfaldlega á þá staðreynd að ekki væri til nægur peningur í heiminum til að hún myndi skipta um starf og að persónulega hún engan áhuga á að fara frá því að berjast um titla með Chelsea yfir í að stýra liði í C-deild enskrar knattspyrnu.

Það kemur því lítið á óvart að Crawley hafi nú þegar hafið viðræður við aðra þjálfara um að taka mögulega við liðinu.

Crawley Town endaði í 12. sæti ensku D-deildarinnar á meðan Chelsea hafði betur í baráttunni við Arsenal um Englandsmeistaratitilinn og lagði Manchester City í úrslitaleik FA bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×