Innlent

Skemma stóð í ljósum logum í Grafar­holti

Árni Sæberg skrifar
Mikill eldur var í húsinu áður en slökkvilið kom á vettvang.
Mikill eldur var í húsinu áður en slökkvilið kom á vettvang. Aðsend/Katrín Gunnarsdóttir

Slökkvilið af þremur af fjórum slökkvistöðvum á höfuðborgarsvæðinu er mætt í Grafarholt þar sem skemma stendur í ljósum logum.

Um er að ræða skemmu sem stendur fyrir ofan verslunina Bauhaus í Grafarholti.

Starfsmaður slökkviliðsins segir að allt tiltækt lið af þremur slökkvistöðvum sé mætt á vettvang en lið af einni hafi ekki verið ræst út til vara. Hann segir jafnframt að tankar séu á leið upp í Grafarholt þar sem langt sé í vatnsinntak á svæðinu.

Lesandi Vísis sem hringdi inn og tilkynnti um eldinn segir í samtali við fréttastofu að um nokkuð stóran bruna sé að ræða og að skemman hafi staðið í ljósum logum. Starfsmaður slökkviliðsins hafði ekki frekari upplýsingar en að eldur hafi komið upp í skemmunni og að slökkvilið væri mætt á vettvang.

Íbúi á svæðinu segir í samtali við Vísi að skemman hafi staðið í ljósum logum um stund en að fjölmennt lið Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi ráðið niðurlögum eldsins fljótt. Að hans sögn hýsti skemman áður starfsemi svifdrekafélags Reykjavíkur. 

Húsið sem varð eldi að bráð hýsti starfsemi áhugamanna um svifdrekaflug.Aðsend/Ívar Larsen

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×