Fótbolti

Kristall Máni við það að skrifa undir hjá Rosen­borg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristall Máni er á leið til Noregs ef marka má fjölmiðla þar í landi.
Kristall Máni er á leið til Noregs ef marka má fjölmiðla þar í landi. Vísir/Hulda Margrét

Kristall Máni Ingason, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings, er sagður á leið til Noregs þar sem hann mun ganga til liðs við stórliðið Rosenborg.

Þetta kemur fram á norska miðlinum Nettavisen. Þar segir að það styttist í að Kristall Máni verði leikmaður sigursælasta lið Noregs en Rosenborg hefur 26 sinnum orðið Noregsmeistari. 

Kristall Máni hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarna daga eftir að skora fyrra mark Víkinga í 2-3 tapi liðsins gegn Malmö í undankeppni Meistaradeildar Evrópu og fá svo rautt spjald fyrir að „ögra“ stuðningsfólki heimaliðsins í kjölfarið. 

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, sagði fyrir skemmstu að hann teldi litlar sem engar líkur á því að Kristall Máni myndi klára tímabilið með liðinu en þessi sóknarþenkjandi leikmaður var frábær er liðið vann tvöfalt í fyrra. 

Hann hefur einnig spilað mjög vel í sumar, bæði með Víkingum og U-21 árs landsliði Íslands þar sem hann er lykilmaður.

Það virðist sem Arnar hafi rétt fyrir sér ef marka má fréttir Nettavisen. Þetta er mikið högg fyrir Víking sem er í 2. sæti Bestu deildarinnar og komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins. Einnig eiga Víkingar ágætis möguleika gegn Malmö en síðari leikur liðanna fer fram 12. júlí næstkomandi. Kristall Máni verður hins vegar ekki með þar eftir að hafa fengið rautt í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×