Aldís, sem er einnig formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, var ráðinn sem nýr sveitarstjóri Hrunamannahrepps í sumar og hóf störf sín fyrir sveitarfélagið í gær. Þar er hún með tæpa 1,8 milljón á mánuði.
Á síðasta kjörtímabili var hún bæjarstjóri Hveragerðis en Fréttablaðið greindi frá því í morgun að hún hefði fengið eingreiðslu frá bænum upp á tæpar 17 milljónir króna vegna starfsloka sinna.
„Það sem kom til útborgunar vegna bæði þessara biðlauna í sex mánuði og uppgjörs á orlofi voru 8,2 milljónir. Og inni í því er uppgjör á sumarfríi sem er tveir og hálfur mánuðir,“ segir Aldís. Hún hafi átt inni allt sumarfrí sitt í ár og þónokkra daga frá síðustu árum - samtals um tvo og hálfan mánuð.
Þingmenn geta misst biðlaun
Þegar horft er til biðlauna þingmanna þá fá þeir ýmist greidd laun í þrjá til sex mánuði eftir starfsaldri en ef þeir ráða sig í annað starf á því tímabili dragast þær tekjur sem þeir hljóta þar frá biðlaununum frá ríkinu.
Spurð hvort það sé eðlilegt að sveitarstjórar haldi öllum biðlaunum sínum þegar þeir eru komnir í ný störf segir Aldís:
„Ég held að það sé afar fátítt ef að biðlaun sveitarstjóra detti niður þó að þeir fari í annað starf en auðvitað er það eitthvað sem hver sveitarstjórn þarf að gera upp við sig þegar hún ræður sinn sveitarstjóra.“
Umræðan nú sérstök
Hún segir að almennt séu sveitarstjórar á ágætislaunum á Íslandi.
„En ég held að það sé rangtúlkun á staðreyndum að sveitarstjórar séu á einhverjum ofurlaunum. Og þessi réttindi sem sveitarstjórar hafa vel flestir - þetta er eitthvað sem sveitarfélagið semur um við þá og þetta er ekkert ólíkt því sem er samið um á hinum almenna markaði,“ segir Aldís.
Umræða um laun sveitarstjóra dúkkar upp á fjögurra ára fresti þegar ný kjörtímabil hefjast. Aldís man þó ekki eftir því að hún hafi áður verið eins „áköf og núna sem er pínulítið sérstakt og þá sérstaklega í ljósi þessarar launaþróunar sem hefur verið á Íslandi undanfarin ár. Og það eru bara margir á Íslandi komnir nálægt þessum launum án þess að það sé að rata í fjölmiðla með þeim hætti sem laun sveitarstjóra gera,“ segir hún.
„Í hvert skipti sem sveitarstjóri skrifar undir starfssamning núna þá kemur það í fréttunum. Og það er kannski bara eðlilegt í ljósi gagnsæis og opinberrar umræðu. En fólk verður að gæta að því við hvað það miðar þegar það er að fara í þessa umræðu.“
Í því samhengi bendir hún til dæmis á samanburð sem oft er gerður um það þegar laun sveitarstjóra eru borin saman við íbúafjölda sveitarfélagsins. Sveitarstjórar smærri sveitarfélaga eru nefnilega oft á meðal þeirra hæst launuðu á landinu en þar bendir Aldís á að í þeim hafi sveitarstjórarnir oftar en ekki mun fleiri verkefni og skyldur á sinni könnu en sveitarstjórar stærri sveitarfélaga, sem hafi yfir fleira starfsfólki og umfangsmeiri stjórnsýslu að ráða.