Að minnsta kosti sextán heimili hafa orðið eldinum að bráð en hingað til hefur enginn látist eða slasast í eldunum. Samkvæmt CNN hafa 60 ferkílómetrar af skógi brunnið hingað til og loga eldarnir enn.
„Við erum að komast á þann stað að allir slökkviliðsmenn eru að verða uppgefnir,“ segir innviðaráðherra Frakklands, Gerald Darmanin.
Slökkviliðsmenn í Frakklandi eru 250 þúsund talsins en 79 prósent þeirra eru sjálfboðaliðar. Tíu þúsund slökkviliðsmenn eru nú á víð og dreif um landið að vinna í því að slökkva skógareldana. Búið er að loka A63-hraðbrautinni sem sameinar borgirnar Bordeaux, sem er stærsta borg Gironde-svæðisins, og Bayonne.
„Það stefnir í mjög erfiðan dag með miklum áhættum. Veðrið er ekki með okkur í liði þessa stundina,“ segir í tilkynningu frá yfirvöldum í Frakklandi. Á morgun mun forsætisráðherra Frakklands, Élisabeth Borne, heimsækja svæðið ásamt innviðaráðherranum.
Mikil hitabylgja er í Frakklandi þessa stundina en sums staðar um landið mun hiti ná allt að fjörutíu gráðum á morgun og á föstudaginn. Mun þetta vera fjórða hitabylgjan síðan í byrjun júní sem ríður yfir Frakkland.