Peter Adlersson, talsmaður lögreglunnar í Gautaborg, segir í samtali við SVT að árásarmannsins sé enn leitað. Á maðurinn að hafa verið farþegi í sporvagninum, hleypt af skoti og svo flúið af vettvangi.
Adlersson segir að konan hafi verið skotin í kviðinn. Hann segir konuna vera með meðvitund og hafi getað rætt við lögreglu. Sé það mat sjúkraliðs að ástand konunnar sé stöðugt.
Ekki liggur fyrir hvort að fleiri farþegar hafi verið um borð í sporvagninum.
Umfangsmiklar aðgerðir lögreglu standa nú yfir vegna leitarinnar að árásarmanninum og hefur lögregla girt af svæðið í kringum vagninn vegna rannsóknar málsins.
Uppfært 10:45: Lögregla í Gautaborg hefur handtekið mann á sjötugsaldri sem grunaður er um árásina.