Fótbolti

Ingibjörg lék allan leikinn í sigri | Íslendingalið Sogndal fékk skell

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir og stöllur hennar í Valerenga unnu góðan sigur í dag.
Ingibjörg Sigurðardóttir og stöllur hennar í Valerenga unnu góðan sigur í dag. VÍSIR/VILHELM

Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Valerenga er liðið vann góðan 2-0 sigur gegn Lyn í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Íslendingalið Sogndal fékk hins vegar skell í karlaboltanum, en liðið mátti þola 0-4 tap gegn Brann á heimavelli.

Ingibjörg og stöllur hennar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik. Það reyndurst einu mörk leiksins og niðurstaðan því öruggur 2-0 sigur Valerenga.

Liðið situr nú í þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 39 stig eftir 17 leiki, fimm stigum á eftir toppliði Brann. Lyn situr hins vegar í fimmta sæti með 23 stig.

Þá máttu Íslendingarnir í karlaliði Sogndal þola 0-4 tap er liðið tók á móti Brann í norsku B-deildinni. Hörður Gunnarsson, Valdimar Þór Ingimundarson og Jónatan Ingi Jónsson voru allir í byrjunarliði Sogndal, en gestirnir í Brann fóru með 0-2 forystu inn í hálfleikinn.

Gestirnir bættu svo tveimur mörkum við í síðari hálfleik, það síðara kom stuttu eftir að heimamenn í Sogndal höfðu misst mann af velli með rautt spjald.

Niðurstaðan því 0-4 sigur Brann sem trónir á toppi deildarinnar með 57 stig eftir 21 leik og hefur ekki enn tapað leik í deildinni. Sogndal situr hins vegar í sjötta sæti með 32 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×