Fótbolti

Íslendingalið Viking úr leik eftir grátlegt tap

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Samúel Kári Friðjónsson og félagar hans í Viking misstu af sæti í Sambandsdeild Evrópu í kvöld.
Samúel Kári Friðjónsson og félagar hans í Viking misstu af sæti í Sambandsdeild Evrópu í kvöld. Viking

Íslendingalið Viking frá Noregi missti af sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu er liðið tapaði 1-3 á heimavelli gegn rúmenska liðinu FCSB í kvöld. Viking vann fyrri leik liðanna 2-1, en gestirnir frá Rúmeníu tryggðu sér samanlagðan 4-3 sigur með marki í uppbótartíma í kvöld.

Patrik Sigurður Gunnarsson og Samúel Kári Friðjónsson léku báðir allan leikinn fyrir Viking í kvöld. Patrik var á sínum stað á milli stangann hjá liðinu og Samúel lék á miðri miðjunni.

Rúmensku gestirnir tóku forystuna í leiknum með marki strax á annarri mínútu áður en heimamenn jöfnuðu metin um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan því 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Gestirnir náðu forystunni á ný snemma í síðari hálfleik og staðan því aftur orðin jöfn í einvíginu. Það stefndi allt í að framlegja þyrfti leiknum, en gestirnir tryggðu sér sigurinn með marki af vítapunktinum á fjórðu mínútu uppbótartíma.

FCSB verður því í pottinum þegar dregið verður í riðla Sambandsdeildarinnar á morgun, en Íslendingalið Viking situr eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×