Innlent

Við­bragðs­á­ætlun hefði legið fyrir í FSu ef ráðu­neytið hefði fylgt eftir til­lögum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sólborg Guðbrandsdóttir fer fljótlega á fund með mennta- og barnamálaráðherra.
Sólborg Guðbrandsdóttir fer fljótlega á fund með mennta- og barnamálaráðherra. vísir

Viðbragðsáætlun vegna kynferðisofbeldismála hefði legið fyrir í Fjölbrautaskóla Suðurlands ef menntamálaráðuneytið hefði fylgt eftir tillögum sem unnar voru á síðasta ári. Þetta segir formaður starfshóps sem vann skýrsluna og telur miður að hún hafi endað í skúffu ráðuneytisins. 

Forsvarsmenn nemendafélags Fjölbrautarskóla Suðurlands sögðust um helgina vera ósáttir við hvernig stjórnendur tóku á meintu kynferðisofbeldi innan veggja skólans. Meintur gerandi í málinu fékk upphaflega fjögurra daga brottvísun frá skólanum og hvatti skólameistari nemendur til að ræða málið ekki á samfélagsmiðlum.

Sólborg Guðbrandsdóttir fór fyrir starfshópi sem skilaði Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra tillögum um markvissari kynfræðslu og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum í júlí á síðasta ári. Í þeim var meðal annars lagt til að kynfræðsla yrði gerð að skyldufagi og að viðbragðsáætlun vegna kynferðisofbeldismála ætti að liggja fyrir í öllum skólum landsins.

„Miðað við viðbragðsáætlanir sem eru til í grunnskólum varðandi einelti, andlegt- og líkamlegt ofbeldi að þá þyrftu líka að vera til viðbragðsáætlanir gegn kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi. Ég veit ekki hvort það séu til áætlanir í einhverjum skólum, eflaust, en því miður á það alls ekki við um alla skóla og það er eitthvað sem verður að breyta,“ sagði Sólborg.

Starfshópurinn lagði til að ráðuneytið myndi innleiða skýrsluna að mestu haustið 2021.

„Og hvöttum þá einnig til að grunn- og framhaldsskólar væru búnir að innleiða þessar skýrslur í skólakerfið sitt haustið 2022. Þannig í málum eins og hafa verið að koma upp núna þá hefðu skólar átt að vera með þessar viðbragðsáætlanir til staðar ef ráðuneytið hefði í kjölfarið unnið þessa vinnu sem okkur var sagt að yrði unnin.“

Ekki nóg að boða til fundar, aðgerðir verði að fylgja

Sólborg segist hafa óttast það frá upphafi að skýrslan myndi enda ofan í skúffu ráðuneytisins en segir að þáverandi ráðherra hafi fullvissað Sólborgu um að skýrslunni yrði framfylgt. Því sé það sorgleg staðreynd að nú rúmu ári seinna hafi lítið sem ekkert gerst.

Ásmundur Einar Daðason, núverandi barnamálaráðherra hafði samband við Sólborgu í morgun og óskaði eftir fundi með henni um viðbragðsáætlanir vegna kynferðisofbeldis.

„En það að óska eftir fundi er eitt, en svo að raunverulega gera eitthvað í framhaldinu er annað þannig við verum bara að bíða og sjá hverju þessi fundur skilar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×