Fótbolti

Ekkert fær Håland stöðvað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þó þriðjudagur hafi verið fallegur dagur í Sevilla þá fannst Bono það eflaust ekki er hann fékk á sig fjögur mörk.
Þó þriðjudagur hafi verið fallegur dagur í Sevilla þá fannst Bono það eflaust ekki er hann fékk á sig fjögur mörk. EPA-EFE/Julio Munoz

Norski framherjinn Erling Braut Håland hefur komið eins og stormsveipur inn í lið Englandsmeistara Manchester City. Hann hefur raðað inn mörkum í ensku úrvalsdeildinni og á þriðjudag skoraði hann tvö mörk í öruggum 4-0 sigri á Sevilla.

Þegar það var staðfest að Håland hefði samið við Man City var talið að mögulega þyrfti framherjinn nokkrar vikur til að komast í takt við lið Pep Guardiola. Hans fyrrum lið Borussia Dortmund spilar nefnilega ekki fótbolta á sama hátt og Man City. 

Þær áhyggjur voru að öllu óþarfar þar sem Norðmaðurinn ungi þarf lítið að pæla í að spila boltanum og aðeins að pæla í að þruma honum í netið.

Fyrir leikinn gegn Sevilla á þriðjudag hafði skorað tíu deildarmörk í aðeins sex leikjum. Ef honum tekst að halda þeirri tölfræði – það er að skora 1,6 mark í leik – þá mun Håland rústa markameti deildarinnar.

Framherjinn sýndi svo að það er lítill munur á Meistaradeild Evrópu og ensku úrvalsdeildinni. Allavegar þegar kemur að því að setja boltann í netið. Hann skoraði á tuttugustu mínútu eftir sendingu frá Kevin De Bruyne. Annað markið kom svo á 67. mínútu en þremur mínútum síðar var framherjinn tekinn af velli.

Håland er fyrsti leikmaðurinn til að skora í bæði sínum fyrsta deildar- og Meistaradeildarleik fyrir Man City. Þá er hann í fámennum hópi leikmanna sem hafa skorað í sínum fyrsta leik fyrir þrjú mismunandi félög í Meistaradeild Evrópu. Hinir eru Fernando Morientes, Javier Saviola og Zlatan Ibrahimović.

Þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára hefur Håland nú skorað 20 mörk fyrir Salzburg, Dortmund og Man City í deild þeirra bestu. Aðeins hafa 36 leikmenn skorað fleiri mörk en hann í keppninni.

Vissulega á framherjinn ungi langt í land með að ná Cristiano Ronaldo sem trónir á toppi listans yfir markahæstu menn keppninnar frá upphafi með 141 mark en aðeins Ronaldo og Lionel Messi hafa skorað yfir 100 mörk í keppninni. Það skyldi engan undra ef Håland verður sá þriðji þegar fram líða stundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×