Rússar hörfuðu frá Lyman, mikilvægum bæ í norðanverðu Donetsk-héraði, og öðrum byggðum á svæðinu. Fregnir hafa borist af miklu mannfalli meðal Rússa á svæðinu.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi í gærkvöldi að góður árangur Úkraínumanna og sérstaklega frelsun Lyman, sýndi fram á að innlimun Rússa á úkraínsku landi væri farsi. Hann hét því enn og aftur að reka Rússa alfarið á brott úr Úkraínu.
Sjá einnig: Lyman sýni að innlimunin sé farsi
Úkraínumenn eru einnig sagðir hafa komið höndum yfir mikið af hergögnum sem Rússar munu hafa skilið eftir við undanhaldið frá Lyman.
Sóttu langt fram í Kherson í dag
Þá hafa Úkraínumenn brotið sér leið í gegnum varnarlínur Rússa í Kherson-héraði í suðurhluta landsins. Gagnsókn Úkraínumanna í Kherson hefur staðið yfir í nokkrar vikur. Hún hefur gengið hægt og ku hafa verið mjög kostnaðarsöm fyrir úkraínska hermenn.
Í aðdraganda sóknarinnar eru Rússar sagðir hafa flutt sínar reyndustu og bestu hersveitir til norðurbakka Dnipróár, þar sem Rússar hafa byggt upp öflugar varnir. Úkraínumenn hafa reynt að einangra þá og skera á birgðaleiðir þeirra.

Lýstu yfir miklum áhyggjum
Rússneskir herbloggarar, sem eru mjög virkir í Rússlandi og margir hverjir með heimildarmenn innan hersins, byrjuðu í dag að tala um mjög erfitt ástand í Kherson og um nauðsyn þess að senda liðsauka á svæðið.
Enn er tiltölulega óljóst hvernig Úkraínumenn gerðu það en þeim tókst að brjóta varnir Rússa við bakka Dnipro í austhluta Kherson á bak aftur og sækja þar fram, eins og sjá má á meðfylgjandi korti, sem einn af vinsælli herbloggurum Rússlands gerði í dag.
This is a map of the area in question (from military blogger Rybar) https://t.co/giXhPkL44O pic.twitter.com/I62rKxPxgg
— Francis Scarr (@francis_scarr) October 2, 2022
Blaðamaður Economist hefur eftir heimildarmanni sínum í úkraínska hernum að herinn hafi farið minnst tuttugu kílómetra inn á yfirráðasvæði Rússa í dag og stefni á frekari sókn í nótt.
Vert er að benda á að einhverjar af þessum fregnum hafa ekki verið staðfestar enn en myndir sem úkraínskir hermenn hafa birt á samfélagsmiðlum sína að þeir hafa frelsað þó nokkrar byggðir á svæðinu.
Með því að brjóta sér leið í gegnum varnir Rússa gætu Úkraínumenn mögulega reynt að komast hjá sterkum vörnum Rússa annarsstaðar í héraðinu og króað af rússneska hermenn. Næstu dagar verða þó að leiða í ljós hvort Úkraínumönnum takist að nýta sér opnunina. Slíkt krefst góðs skipulags og mikils mannafla sem yrði þá dælt inn í opið sem myndaðist á línum Rússa.
Rússar hafa birt myndir sem sýna að minnst ein árás Úkraínumanna í Kherson misheppnaðist í dag.
Another YPR-765, T-72M1 and BMP-1 IFV were also abandoned by Ukrainian forces nearby. pic.twitter.com/R3p1iBDSUU
— Ukraine Weapons Tracker (@UAWeapons) October 2, 2022
Ná einnig árangri norður af Lyman
Úkraínumenn eru einnig sagðir hafa náð árangri við bæinn Kupiansk í Kharkív-héraði, norður af Lyman. Þar hafa Úkraínumenn sótt fram gegn Rússum og náð fótfestu á austurbakka Oskilár. Staða úkraínskra hermanna á austurbakkanum batnaði í dag en þeir eru sagðir hafa náð tökum á bænum Kivsharivka, austur af Kupiansk.
Úkraínskir hermenn birtu í dag myndband af sér deila sælgæti með börnum í bænum.
Kids greet our Warriors in liberated Kivsharivka, Kharkiv region.
— Anton Gerashchenko (@Gerashchenko_en) October 2, 2022
They haven't seen sweets in a long time...
: Tipichnoe HTZ/Telegram pic.twitter.com/MB0lB6DGyk